Handbolti

Ís­land á meðal efstu liða í spám veð­banka fyrir EM

Aron Guðmundsson skrifar
Það mun mæða mikið á Ómari Inga Magnússyni á komandi stórmóti með íslenska landsliðinu
Það mun mæða mikið á Ómari Inga Magnússyni á komandi stórmóti með íslenska landsliðinu Vísir/Hulda Margrét

Nú þegar rétt rúmur mánuður er til stefnu þar til að flautað verður til leiks á Evrópu­mótinu í hand­bolta eru spár veð­banka fyrir mótið teknar að birtast. Mótið fer fram í Þýska­landi í þetta sinn og er Ís­land á meðal þátt­töku­þjóða.

Um er að ræða fyrsta stór­mót liðsins undir stjórn lands­liðs­þjálfarans Snorra Steins Guð­jóns­sonar. Hingað til hefur liðið leikið tvo leiki undir hans stjórn, æfingar­leiki gegn Fær­eyjum hér heima og unnust þeir báðir.

Ís­land endaði í 6.sæti á síðasta Evrópu­móti, sem haldið var í Ung­verja­landi og Slóvakíu árið 2022 og miðað við spár veð­banka má búast við svipaðri niður­stöðu á komandi Evrópu­móti.

Snorri Steinn hefur farið á fjölmörg stórmót í gegnum tíðina en núna er hann á leið á sitt fyrsta stórmót sem landsliðsþjálfari.Vísir/Hulda Margrét

Veð­bankarnir Uni­bet og Boy­le­sports spá því báðir að Ís­land, sem verður í riðli með Serbíu, Ung­verja­landi og Svart­fjalla­landi, muni enda í 6. sæti mótsins.

Lík­legast þykir að ríkjandi heims­meistarar Dan­merkur muni hrifsa til sín Evrópu­meistara­titilinn af ná­grönnunum frá Sví­þjóð og standa uppi sem meistarar að af­loknum úr­slita­leik EM 2024 þann 28. janúar á næsta ári.

Svíum er spáð öðru sæti, Spán­verjum þriðja, Frökkum fjórða og Þjóð­verjum, sem leika á heima­velli, fimmta sæti. Nokkuð stórt bil er svo í stuðlunum frá Ís­landi í 6. sæti og niður í Noreg í 7. sæti. 

Skeinuhættir Ungverjar

Riðill Ís­lands á Evrópu­mótinu er spilaður í Munchen og hefur ís­lenska lands­liðið leik gegn Serbíu þann 12. janúar. Veð­bankar hafa trú á því að Serbar muni enda í níunda sæti á mótinu.

Þann 14. janúar tekur við leikur gegn Svart­fellingum sem er ekki spáð sér­stöku gengi á mótinu, raunar er liðið á meðal þeirra sex liða sem spáð er lakasta genginu sam­kvæmt veð­bönkum.

Tveimur dögum síðar, nánar til­tekið þann 16. janúar munu Strákarnir okkar mæta Ung­verjum sem er það lið í riðlinum, á eftir Ís­landi, sem spáð er bestu gengi á mótinu. Veð­bankar hafa trú á því að Ung­verjar, sem enduðu í áttunda sæti á heims­meistara­mótinu í Pól­landi og Sví­þjóð í upp­hafi þessa árs, muni enda í áttunda sæti á EM í Þýska­landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×