Sport

Spá því að kvennaíþróttir búi til 165 milljarða á næsta ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Deloitte hefur reiknað út mögulegar tekjur í kvennaíþróttum á næsta ári og það getur enginn sagt lengur að það séu ekki peningar í kvennaíþróttum.

Samkvæmt úttekt Deloitte þá munu tekjur af kvennaíþróttum komast í fyrsta sinn yfir einn milljarð Bandaríkjadala á árinu 2024.

Þetta er þrjú hundruð prósent hækkun frá því fyrir samskonar mati Deloitte fyrir aðeins þremur árum síðan.

Kvennafótboltinn á stóran þátt í þessu en samkvæmt spá Deloitte en hann mun afla tekna upp á 555 milljónir dollara á næsta ári en það eru um 76 milljarðar íslenskra króna.

Tekjur í kvennaíþróttum síðustu ár samkvæmt Deloitte.deloitte.com

Þrátt fyrir að kvennafótboltinn sé stór í Evrópu þá eru það kvennaíþróttirnar í Norður Ameriku sem skila mestum tekjum.

Alþjóða knattspyrnusambandið hélt vel heppnað heimsmeistaramót í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á þessu ári og var það enn eitt skrefið í rétta átt að auka hróður kvennafótboltans.

Deloitte telur að heildartekjur kvennaíþrótta á árinu 2024 verði 1,2 milljarðar Bandaríkjadala eða um 165 milljarðar íslenskra króna.

Kvennaíþróttirnar munu því taka stórt skref á næsta ári þegar kemur að tekjum og vinsældum samkvæmt sérfræðingum Deloitte en það er líka ekkert því til fyrirstöðu að þær haldi áfram að nálgast karlaíþróttirnar næstu árin. Það er samt enn langur vegur í það að þær komist nálægt karlaíþróttunum enda mjög stórt bil að brúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×