Tor­sóttur sigur topp­liðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar átti góðan leik í liði Lille sem mátti þó þola naumt tap.
Hákon Arnar átti góðan leik í liði Lille sem mátti þó þola naumt tap. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði Lille sem sótti Liverpool, eitt besta lið Evrópu um þessar mundir, heim á Anfield í Meistaradeild Evrópu. Fór það svo að heimaliðið vann torsóttan 2-1 sigur þó gestirnir væru manni færri í rúman hálftíma.

Hákon Arnar hefur átt góðu gengi að fagna í liði Lille undanfarið og skorað í síðustu tveimur leikjum sínum. Hann var því í byrjunarliði gestanna þegar flautað var til leiks á Anfield. 

Gestirnir byrjuðu af krafti en það var Mohamed Salah sem braut ísinn með yfirvegaðri afgreiðslu eftir að Curtis Jones sendi boltann í gegnum vörn Lille á 34. mínútu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Aïssa Mandi fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar tæp klukkustund var liðin. Brekkan því orðin brött hjá gestunum sem voru þarna marki undir og manni færri. Það kom þó ekki að sök þar sem nokkrum mínútum síðar átti Gabriel Gudmundsson góðan sprett upp vinstri vænginn. 

Fyrirgjöf sænska bakvarðarins fann Hákon Arnar sem átti skot í varnarmann Liverpool en þaðan hrökk boltinn fyrir fætur hins tvítuga Ngalayel Mukau sem jafnaði metin.

Gestirnir fagna.EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Mukau átti hins vegar sinn þátt í sigurmarki Liverpool sem kom á 67. mínútu. Eftir að varnarmúr Lille hafði skallað hornspyrnu frá marki átti Harvey Elliott saklaust skot sem fór af Mukau og flaug í netið. Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur á Anfield.

Liverpool er því með fullt hús stiga að loknum sjö umferðum í Meistaradeild Evrópu og trónir á toppnum með 21 stig. Þar á eftir kemur Barcelona með 18 stig og Atlético Madríd er þar á eftir með 15 stig. Hákon Arnar og félagar eru með 13 stig í 11. sæti.

Aðeins ein umferð er eftir af hefðbundinni deildarkeppni Meistaradeildarinnar. Þá fara efstu átta liðin beint í 16-liða úrslit meðan liðin í 9. til 24. sæti fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira