Hættustig almannavarna var virkjað í gær vegna tjónsins sem var á neysluvatnslögninni til Eyja. Skemmdirnar eru umfangsmiklar og ná yfir um þrjú hundruð metra kafla á lögninni. Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra segir að sem stendur sé engin bráð hætta. Hin laskaða lögn flytur enn nægt vatn og ekki þarf að grípa til skömmtunar.
„Staðan er líka óbreytt að því leytinu til að leiðslan er gríðarlega mikið skemmd og mjög viðkvæm fyrir öllum hreyfingum og það er mat manna að það þurfi lítið til að hún rofni.“
Í ljósi þess sé ekki talið óhætt að reyna að gera við hana en reynt verður að festa lögnina til að reyna að koma í veg fyrir frekari skemmdir.
„Kafararnir sem eru að undirbúa að festa lögnina eru að bíða eftir réttum aðstæðum. Það eru ekki góðar aðstæður í augnablikinu en veðurspáin er hagstæð fyrir næstu daga þannig að það er allt á fullu skilst mér hjá þeim fyrirtækjum sem ætla að vinna að því að festa lögnina.“
Hér að neðan má sjá myndband sem sýnir skemmdirnar sem urðu á lögninni til Eyja.
Nú stendur einnig yfir vinna við að greina vatnsþörfina; annar vegar hversu mikið vatn þurfi til að halda fullri starfsemi og hins vegar nauðsynlegri starfsemi. Nokkrar leiðir eru fyrir hendi til að koma vatni til Vestmannaeyja ef lögnin rofnar alveg.
„Bæði með einhverja bráðabirgðalagnir, flutning á neysluvatni og síðan jafnvel möguleika sem er í stöðunni að hreinsa sjó, það er líka ein leiðin sem verið er að skoða.“
En þetta er gríðarlega vandasamt verkefni. Er staðan ekki þannig að þetta viðbúnaðarstig geti varað jafnvel í einhverja mánuði?
„Það eru miklar líkur á því að þetta ástand vari alveg þar til ný lögn er komin,“ segir Víðir en bjartsýnustu spár um lagningu nýrrar lagnar er á vormánuðum 2024.