Þegar sáust myndir af Aaron Rodgers kasta boltanum fyrir leik New York Jets á dögunum þá var eflaust til efasemdarfólk sem hélt að þetta væri bara eitthvað plat.
Hvernig á maður sem sleit hásin í byrjun september geta snúið aftur til æfinga aðeins ellefu vikum síðar?
Stórstjarnan Aaron Rodgers er hins vegar að gera einmitt það. Jets tilkynnti í gær að Rodgers mætti byrja að æfa aftur með liðinu. Þeir tóku hann af meiðslalistanum og hafa til 20. desember til að meta stöðuna á honum.
Rodgers hefur sett sjálfur stefnuna á það að spila á móti Washington Commanders 20. desember næstkomandi.
Rodgers heldur upp á fertugsafmælið sitt á laugardaginn kemur en þótt að hann megi byrja að æfa þá er hann þó ekki kominn með grænt ljóst á að fara í átök. Hann æfir án snertinga til að byrja með og menn munu síðan meta stöðuna á honum dag frá degi.
Rodgers segir sjálfur að tvennt muni ráða endurkomu hans. Heilsan auðvitað og svo hvað mikla möguleika Jets liðið á að komast í úrslitakeppnina.
Robert Saleh, þjálfari Jets, segir að Rdgers muni spila ef hann vill spila og ef hann fær grænt ljós frá læknum.