Fótbolti

Fyrsta framherjamarkið hjá ís­lenska lands­liðinu síðan í apríl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Getty/ANP

Diljá Ýr Zomers skoraði markið sem á endanum var munurinn á liðunum þegar íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann 2-1 sigur á Wales í Þjóðadeildinni á föstudagskvöldið. Markið var ekki aðeins mikilvægt heldur einnig langþráð.

Íslenska liðinu hafði gengið illa að skora í Þjóðadeildinni og var ekki búið að skora í 371 mínútu þegar miðjumaðurinn Hildur Antonsdóttir braut loksins ísinn í fyrri hálfleiknum í Wales.

Það breytti þó ekki því að framherjar íslenska liðsins höfðu ekki enn fundið leiðina í markið.

Þegar Diljá Ýr kom íslenska liðinu í 2-0 ellefu mínútum fyrir leikslok þá endaði hún því aðra langa bið. Wales minnkaði muninn í lokin og því réð þetta mark hennar úrslitum og tryggði íslenska liðinu endanlega þriðja sætið í riðlinum. Wales er aftur á móti fallið í B-deild.

Síðustu þrjú mörk íslenska liðsins og þau einu í síðustu sex leikjum höfðu öll verið skoruð af varnar- eða miðjumönnum.

Mörkin skoruðu Berglind Rós Ágústsdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir.

Framherjar íslenska liðsins höfðu ekki náð að skora síðan í 2-1 sigri á Sviss í aprílmánuði. Sveindís Jane Jónsdóttir tryggði íslenska liðinu þá sigur með marki á 73. mínútu. Íslenska liðið hefur náttúrulega saknað Sveindísar mikið en hún missti af allir Þjóðadeildinni vegna meiðsla.

Síðan Sveindís kom boltanum í markið hjá Svisslendingum höfðu íslensku stelpurnar spilað 646 mínútur án þess að fá mark fram framherja liðsins eða þangað til að Diljá skoraði þetta stórglæsilega mark sitt. Nú er að vona að markamúrinn sé brotinn og mörkin fari að flæða á ný.

Íslenska liðið leikur lokaleik sinn í Þjóðadeildinni á móti Danmörku annað kvöld en leikurinn fer fram í Viborg í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×