Enski boltinn

Mikill vill meira og fékk það líka í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alejandro Garnacho skorar glæsilegt mark sitt fyrir Manchester United á móti Everton.
Alejandro Garnacho skorar glæsilegt mark sitt fyrir Manchester United á móti Everton. AP/Jon Super

Nýr sjónvarpssamningur ensku úrvalsdeildarinnar er meira en ellefu hundruð milljarða króna virði en deildin hefur gengið frá samningum við Sky Sports, TNT Sports og breska ríkisútvarpið BBC.

Sky Sports og TNT Sports sömdu um beinar útsendingar frá leikjum en breska ríkisútvarpið samdi um að halda áfram útsendingum á markaþætti sínum Match of the day.

Enska úrvalsdeildin segir að samningurinn sé stærsti sjónvarpssamningur sem gerður hefur verið í breskum íþróttum.

Í yfirlýsingu kemur fram að þessir samningar muni skila tekjum upp á 6,7 milljarða punda á þessum fjórum árum en það jafngildir 1184 milljörðum íslenskra króna. Mikill vill meira og fékk það líka í gær.

Samningurinn gildir frá og með 2025-26 tímabilinu og næsta tímabil er því ekki hluti af honum.

Þetta er fjögurra prósenta hækkun frá fyrri samningi ensku úrvalsdeildarinnar við þessar sjónvarpsstöðvar og það eru miklir peningar þegar verið er að tala um svona risastóra samninga.

Sky Sports sem dæmi fékk það líka í gegn að sýna beint frá mun fleiri leikjum en áður. Sky ætlar nefnilega að sýna sjötíu prósent fleiri leiki úr ensku úrvalsdeildinni en alls munu 215 leikir vera sýndir beint á Sky Sports. TNT mun sýna 52 leiki.

Í fyrsta sinn verða allir leikir sýndir beint fyrir utan þá sem byrja klukkan þrjú á laugardögum. Það verða líka leikir í miðri viku þar sem áhorfendur geta valið á milli leikja.

Enska úrvalsdeildin er náttúrulega í algjörum sérflokki þegar kemur að stórum sjónvarpssamningum í fótboltanum en þessi samningur er sem dæmi meira en tvöfalt hærri en nýr samningur um sýningarrétt á ítalska fótboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×