Enski boltinn

De Gea sagður til í að koma til Newcastle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David De Gea í bikarúrslitaleiknum með Manchester United síðasta vor.
David De Gea í bikarúrslitaleiknum með Manchester United síðasta vor. Getty/Will Palmer

Óvænt endurkoma í ensku úrvalsdeildina gæti verið í kortunum því spænski markvörðurinn David De Gea útilokar það ekki að bjarga Newcastle í sínum markvarðarvandræðum.

Hinn öflugi markvörður Nick Pope fór út axlarlið í 1-0 sigri Newcastle á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni um helgina og verður frá í allt að fimm mánuði.

Heimildarmaður ESPN segir að De Gea hafi áhuga á því að koma til Newcastle hafi félagið á annað borð samband.

De Gea er búinn að vera án félags síðan í sumar þegar samningur hans rann út hjá Manchester United.

Hann hafði þá verið á Old Trafford í tólf ár og spilað 545 leiki fyrir félagið. De Gea var lykilmaður í síðasta meistaraliði United vorið 2013 og hann var fjórum sinnum kosinn leikmaður ársins hjá félaginu.

Knattspyrnustjórinn Erik ten Hag vildi skipta um markvörð og sótti í staðinn Kamerúnmanninn André Onana sem kostaði 43 milljónir punda frá Inter. Onana hefur átt erfiða byrjun hjá félaginu og átti meðal annars sök á tveimur mörkum í mögulega dýrkeyptu 3-3 jafntefli á móti Galatasaray í Meistaradeildinni.

Martin Dúbravka kom í markið í staðinn fyrir Pope en markverðirnir Loris Karius og Mark Gillespie eru einnig í leikmannahópi Newcastle.

De Gea hefur búið áfram í Manchester og hefur verið að æfa reglulega sjálfur. Samkvæmt sömu heimildum ESPN þá er hann klár ef rétta kallið kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×