Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ segir stjórnvöld eiga að leiða stjórn efnahagsmála í stað þess að bíða eftir niðurstöðu kjarasamninga og sýna gott fordæmi með hækkun vaxta- og barnabóta. Forystufólk ASÍ og SA mega hvorugt hugsa til þess ef ekki tekst að ná samstöðu um aðgerðir til að ná niður verðbólgu.
„Það er töluvert margt í húfi. Það er að verðbólgan verði áframhaldandi og verðbólgan gerir ekkert annað en éta undan samfélaginu í heild sinni. Ég held að sá möguleiki að þetta takist ekki er eiginlega ekki í boði,“ sagði Finnbjörn í Pallborðinu.
Sigríður Margrét segir ekki hægt að humma stöðu mála fram af sér.
„Það liggur alveg fyrir. Ég er algerlega sammála Finnbirni hvað þetta varðar. Það er gríðarlega mikið í húfi og það er ákall bæði frá bæði einstaklingum og fyrirtækjunum í landinu um að við brjótumst út úr þessum vítahring sem við erum föst í,“ sagði Sigríður Margrét.
„Það er búið að tefja okkur svolítið núna þetta ábyrgðarleysi sem við viljum meina að sé hjá þeim aðilum sem eiga að halda uppi stöðugleika hérna. Þeir eru alltaf að bíða eftir okkur. Það eru þeir sem eiga að halda uppi stöðugleikanum og þeir eiga að sýna á spilin hjá sér,“ sagði forseti ASÍ.
Sigríður Margrét alla þurfa að leggja sitt að mörkum.
„Ef við ætlum okkur raunverulega að brjótast út úr þessum vítahring þurfum við að læra að tala um tölur upp á nýtt. Sá tími þar sem umhugsunarlaust menn hækka laun eða veltir einhverju út í verðlagið; hann er liðinn,“ sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Hér má sjá Pallborðið í heild.