Frammistaða íslenskra nemenda í PISA könnuninni reyndist undir meðaltali í þremur stóru sviðunum sem undir eru í PISA könnuninni; lesskilningi, stærðfræðilæsi og náttúrufræðilæsi.
„Þetta eru þrjú mjög mikilvæg svið og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessu og taka þetta alvarlega því við erum alls ekki á þeim stað sem við viljum vera.“
PISA könnunin gefur okkur vísbendingu um stöðu mála en hún segir hvorki til um hvernig við komumst á þennan stað né hvernig við snúum þróuninni við. Anna Kristín segir að kennsluhætti þurfi að rýna. Íslenskum kennurum hafi tekist vel til að skapa vingjarnlegt og gott andrúmsloft inni í kennslustofunni og að styrkleikarnir séu fjölmargir. Ný norræn rannsókn varpi ljósi á bæði styrkleika og veikleika kennsluháttanna.
„En við sjáum líka að það þarf að styrkja það sem við getum kallað vitsmunalega áskorun; verkefni sem reyna á nemendur. Við þurfum að skoða samræðuhefðina inni í skólastofunum og hvernig tími er nýttur og ýmislegt svona.“
Þá sé stuðningur sveitarfélaga við grunnskólana of brotakenndur. Ný rannsókn frá Háskólanum á Akureyri varpi ljósi á það.
„Stuðningurinn er mjög misjafn eftir sveitarfélögum og það eru kannski bara örfá stærstu sveitarfélögin sem hafa getað gert þetta af einhverju viti, að styðja skólana og það er skortur á faglegri forystu og þetta þarf að taka líka í gegn. Hér eru allt of mörg lítil sveitarfélög sem hafa ekki bolmagn til að styðja við skólana.“
Anna Kristín bendir á að niðurstaðan eigi ekki að koma neinu skólafólki á óvart. Flestir þeir nemendur sem tóku PISA prófið hafa líka á hverju ári tekið próf sem kallast lesferill.
„Þurfti þetta að koma á óvart? Þau eru komin í níunda bekk í grunnskóla. Eigum við ekki að vita í hvað stefndi?“ spyr Anna Kristín sem bendir á að forvitnilegt væri að skoða hvernig þessi árgangur hefði komið út úr þeim prófum, til dæmis í fimmta, sjötta og sjöunda bekk.
„Og hvernig var brugðist við? Hefði þá verið hægt að bregðast betur við því?“