Þetta kemur fram í svörum menntamálayfirvalda í þessum löndum við fyrirspurn Morgunblaðsins. Eistland kom best allra Evrópulanda út úr könnuninni og Finnar stóðu sig best allra á Norðurlöndunum. Á Íslandi hefur Menntamálastofnun neitað að upplýsa skóla um hvernig þeim gekk í síðustu tveimur könnunum.
Verkefnisstjóri PISA fyrir Eistland segir í samtali við Morgunblaðið að nafnlausar niðurstöður séu gefnar til allra skólanna svo þeir geti séð stöðu sína í samanburði við aðra. Í Finnlandi hefur þessi háttur einnig verið hafður á frá upphafi.
Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla hefur gagnrýnt þetta fyrirkomulag á Íslandi og segir í samtali við blaðið að á árum áður hafi upplýsingarnar komið að góðum notum til að sjá hvar skóinn kreppti að. Í skriflegu svari til blaðsins frá Menntamálastofnun segir að könnuninni sé ætlað að gefa heildarmynd af þekkingu og færni nemenda í þátttökulöndum við lok skólaskyldu þeirra, en ekki að veita áreiðanlegar upplýsingar um frammistöðu fámennra nemendahópa eins og þeirra sem tilheyrðu einstökum skólum.