Skoðun

Trú­verðug­leiki Ís­lands í lofts­lags­málum

Þorgerður María Þorbjarnardóttir skrifar

Yfir 80 íslenskir fulltrúar sækja loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmnum sem lýkur 12. desember. Þar á meðal eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku-, og loftslagsráðherra. Íslensk stjórnvöld beita sér á þessum vettvangi fyrir því að loftslagskrísan sé tekin alvarlega. Ein af fjórum helstu áherslum í málflutningi Íslands á aðildarríkjafundinum er að niðurgreiðslum á notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt.

Tvískinnungur í viðhorfum stjórnvalda

28. nóvember síðastliðinn fékk umhverfis og samgöngunefnd til umfjöllunar frumvarp til laga um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Skilafrestur umsagna til nefndarinnar var einni viku síðar og í frumvarpinu kemur fram að það þurfi að afgreiða fyrir áramót.

Það er frábært að við séum að innleiða kerfi þar sem sá sem mengar á að borga enda er það ein af meginreglum umhverfisréttar. Skilaboð íslenskra stjórnvalda á COP28 og undanþága Íslands á þessum viðskiptavettvangi fara hinsvegar ekki vel saman.

Það skýtur skökku við að lesa frumvarp á sama tíma þar sem rökstutt er að Ísland eigi að fá undanþágu frá losunarheimildakerfinu til þess að fá að gefa flugrekendum gjaldfrjálsar losunarheimildir í tvö ár. Ríkið tekur þær sjálft af sínum heimildum sem færu annars á uppboð og ríkissjóður hefði tekjur af sölu þeirra. Losunarheimildirnar eru því í raun kostaðar með fé sem annars hefði runnið í ríkissjóð.

Þetta er ekkert nema niðurgreiðsla á notkun jarðefnaeldsneytis og dregur virkilega úr trúverðugleika íslenskra stjórnvelda á COP28.

Landvernd hefur sent umhverfis- og samgöngunefnd umsögn um málið og bent á að allar losunarheimildir skuli vera á ábyrgð þess sem losar og að Ísland eigi ekki að skorast undan ábyrgð með undanþágum.

Loftslagskrísan er alvöru krísa og það er ekki hægt að velja og hafna aðgerðum eftir hentisemi. Ef Ísland ætlar að standa undir þeirri ímynd á alþjóðavettvangi að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum eigum við ekki að verða uppvís að því að reyna að skorast undan reglum sem aðrar þjóðir þurfa að lúta.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×