Erlent

Norskt tank­skip varð fyrir eld­flaug frá Hútum

Samúel Karl Ólason skrifar
AP23340657995854
AP

Norska tankskipið Strinda varð í gærkvöldi fyrir eldflaug sem skotið var af Hútum í Jemen. Hútar hafa heitið því að stöðva ferð allra skipa sem siglt er til Ísrael og hafa gert árásir á fjölda skipa á undanförnum dögum.

Eldur kviknaði um borð í skipinu en samkvæmt frétt NRK virðist sem enginn hafi dáið í árásinni. Bandaríski tundurspillirinn USS Mason er á vettvangi, auk frönsku freigátunnar Languedoc.

Talsmaður Húta staðfesti í morgun að þeir hefðu skotið eldflauginni að Strinda og sagði það hafa verið gert eftir að áhöfn þess neitaði að verða við skipunum þeirra um að snúa við. Hann segir Húta hafa komið í veg fyrir siglingar þó nokkurra skipa til Ísrael á undanförnum dögum.

Leiðtogar Húta lýstu því yfir um helgina að árásir yrðu gerðar á öll skip sem siglt væri til Ísraels og kæmu ekki við á Gasaströndinni til að flytja neyðarbirgðir þangað. Skipum sem tengdust Ísrael á engan hátt og væru ekki á leið þangað gætu siglt um svæðið.

Til að komast inn í Rauðahaf úr suðri og þaðan gegnum Súes-skurðinn til inn á Miðjarðarhafið þarf að sigla skipum um Aden-flóa og Bab al-Mandab-sund. Skipin fara því mjög nærri ströndum Jemen og yfirráðasvæði Húta. Á undanförnum vikum hafa Hútar skotið eldflaugum og flogið sjálfsprengidrónum að nokkrum flutningaskipum.

NRK hefur eftir framkvæmdastjóra A/S J. Ludwig Mowinckels Rederi, sem gerir út Strinda, að skipið hafi ekki verið á leið til Ísrael. Áhöfn þess hafi verið að sigla skipinu til Ítalíu frá Suðaustur-Asíu. Framkvæmdastjórinn segir mesta áherslu lagða á að tryggja öryggi áhafnarinnar.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að tuttugu þúsund skip fari um svæðið á hverju ári og að tryggja þurfi öryggi um þessa mikilvægu siglingaleið.

Forsvarsmenn fyrirtækisins segja skipið ekki tengjast Ísrael á nokkurn hátt en nýverið hafi verið gerður samningur um flutninga frá Ashdod í Ísrael í næsta mánuði.

Hútar, sem njóta stuðnings frá Íran, hafa um árabil háð blóðuga styrjöld við alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld í Jemen. Þeir hafa sömuleiðis gert árásir í Sádi-Arabíu en Sádar hafa staðið við bakið á yfirvöldum í Jemen.

Hópurinn stjórnar Sanaa, höfuðborg Jemen, og stórum hlutum landsins í norðri og vestri.

Hútar hafa skotið eldflaugum að mörgum skipum og flogið sjálfsprengidrónum að þeim. Þar á meðal eru bandarísk og frönsk herskip. Hútar hafa einnig sent sérsveitarmenn til að taka stjórn á einu skipi sem siglt var til hafnar í Jemen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×