Fótbolti

Á­rásir á dómara séu „krabba­mein sem muni drepa leikinn“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pierluigi Collina er af mörgum talinn einn besti dómari sögunnar.
Pierluigi Collina er af mörgum talinn einn besti dómari sögunnar. Zhizhao Wu/Getty Images

Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála hjá FIFA, segir að árásir á dómara séu eins og „krabbamein sem muni drepa leikinn“ eftir að Faruk Koca, forseti Ankaragucu, kýldi dómara í tyrknesku úrvalsdeildinni síðastliðinn mánudag.

Dómarinn Halil Umut Meler var kýldur til jarðar stuttu eftir að Caykur Rizespor jafnaði gegn Ankaragucu í tyrknesku deildinni á sjöundu mínútu uppbótartíma. Sökudólgurinn var hvorki leikmaður, þjálfari né áhorfandi, heldur forseti Ankaragucu, Faruk Koca.

Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála hjá FIFA, segir árásina hræðilega og að gjörðir sem þessar muni á endanum drepa fótboltann.

„Það sem er enn hræðilegra er að vita af þúsundum dómara um allan heim sem þurfa að þola andlegt og líkamlegt ofbeldi á öllum stigum leiksins,“ sagði Collina um atvikið.

„Þeir eru óþekktir og flestir þeirra eru ungir dómarar sem eru rétt að hefja sinn dómaraferil. Það að lemja dómara vegna einhverrar ákvörðunar sem hann tók á ekki að líðast, jafnvel þó hún sé röng. Það á ekki að kveikja í eða sprengja bílinn hans vegna vítaspyrnudóms.“

„Þetta eru ekki einu sinni ýkjur. Það hefur komið fyrir í einhverjum löndum að bílar dómara hafa verið sprengdir eða kveikt í þeim. Það er á ábyrgð allra sem elska fallega leikinn okkar að stíga upp og gera eitthvað í málinu. Áður en það verður of seint. Áður en þetta krabbamein drepur fótboltann,“ sagði Collina að lokum.


Tengdar fréttir

For­setinn hand­tekinn eftir dómara­á­rásina

Faruk Koca, forseti tyrkneska knattspyrnufélagsins MKE Ankaragucu, hefur verið handtekinn eftir að hann kýldi dómara undir lok viðureignar félagsins gegn Caykur Rizespor í tyrknesku úrvalsdeildinni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×