Fótbolti

FCK bauð stuðnings­mönnum frían bjór eftir sigurinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn FCK höfðu góða og gilda ástæðu til að fagna í kvöld.
Stuðningsmenn FCK höfðu góða og gilda ástæðu til að fagna í kvöld. Mateusz Slodkowski/Getty Images

Stuðningsmenn FCK höfðu góða og gilda ástæðu til að fagna í kvöld er liðið tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu með 1-0 sigri gegn Galatasaray á Parken. Í tilefni af sigrinum fengu stuðningsmenn liðsins frían bjór.

Orri Steinn Óskarsson og félagar verða í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu næstkomandi mánudag. Sigur kvöldsins þýðir að liðið fylgir þýska stórveldinu Bayern München upp úr A-riðli, en Galatasaray þarf að sætta sig við sæti í Evrópudeildinni og Manchester United er alfarið úr leik í Evrópukeppnum á tímabilinu.

Stuðningsmenn liðsins gátu því leyft sér að fagna eftir sigurinn og líklegt þykir að einhverjir muni fagna fram á nótt í dönsku höfuðborginni.

Í tilefni af sigrinum ákvað félagið að gera vel við stuðningsmenn sína og birti skilaboð á stórum skjá á vellinum þar sem tilkynnt var að frír bjór og vatn væri í boði fyrir stuðningsmenn á leið þeirra af vellinum.

„Við óskum öllum stuðningsmönnum FC Kaupmannahafnar til hamingju,“ stóð á skjánum. „Það er frír bjór og frítt vatn á leiðinni út af vellinum,“ stóð enn fremur, en þó var einnig tekið fram að bjórinn væri að sjálfsögðu aðeins fyrir þá sem hefðu aldur til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×