Fótbolti

Dómarinn sem var laminn út­skrifaður af spítala

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dómarinn Halil Umut Meler varð fyrir fólskulegri árás á fótboltavellinum.
Dómarinn Halil Umut Meler varð fyrir fólskulegri árás á fótboltavellinum.

Dómarinn sem var laminn í leik í tyrknesku úrvalsdeildinni í fótbolta hefur verið útskrifaður af spítala.

Á mánudaginn gekk forseti Ankaragucu, Faruk Koca, inn á völlinn eftir leik gegn Caykur Rizespor og kýldi dómarann Halil Umut Meler niður. Stuðningsmenn Ankaragucu réðust líka inn á völlinn og spörkuðu í Meler þar sem hann lá í grasinu.

Í gær birtist mynd af Meler bláum og mörðum og með hálskraga. Hann var svo útskrifaður af spítala í morgun. Hann veifaði til viðstaddra en ber enn merki árásarinnar því hann er með glóðarauga. Læknir Melers sagði ástand hans samt ágætt.

„Hann er í góðum gír. Hann ræður hvað hann gerir næst. Það er ekkert vandamál nema bólga fyrir neðan augað. Við settum hálskragann á hann til öryggis. Beinmarið mun gróa með tímanum en það er ekki meiri blæðing,“ sagði læknirinn.

Öllum fótboltaleikjum í Tyrklandi var frestað eftir árásina á Meler. Koca var svo handtekinn ásamt tveimur öðrum. Hann hefur sagt af sér sem forseti Ankaragucu og beðist afsökunar á að hafa ráðist á Meler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×