Fótbolti

For­setinn fær ævi­langt bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Faruk Koca slær hér Halil Umut Meler dómara niður.
Faruk Koca slær hér Halil Umut Meler dómara niður. Getty/Emin Sansar

Faruk Koca, forseti Ankaragucu, má ekki koma nálægt fótbolta þar sem eftir lifir ævinnar.

Tyrkneska knattspyrnusambandið hefur gefið honum ævilangt bann fyrir að kýla dómara eftir leik Ankaragucu og Rizespor á mánudagskvöldið.

Í leikslok ruddist Koca niður á völlinn og út á grasið. Hann fór upp að dómaranum og sló hann niður þannig að stórsá á einum besta dómara Tyrkja.

FIFA-dómarinn Halil Umut Meler endaði á sjúkrahúsi en var útskrifaður á miðvikudaginn með ljótt glóðarauga en virðist hafa sloppið við alvarlegri meiðsli.

Félagið þarf líka að greiða risasekt eða tvær milljónir líra sem er um níu og hálf milljón í íslenskum krónum.

Ankaragucu þarf einnig að spila næstu fimm heimaleiki sína fyrir luktum dyrum en sú refsing kemur til vegna óláta áhorfenda og starfsmanna félagsins.

Fjöldi starfsmanna félagsins fengu einnig bönn, viðvaranir eða sektir í kjölfar þess sem gekk á eftir leikinn.

Koca var handtekinn daginn eftir leikinn og tyrkneska knattspyrnusambandið frestaði öllum fótboltaleikjum í landinu. Sambandið hefur nú ákveðið að hefja aftur leik á þriðjudaginn í næstu viku.


Tengdar fréttir

For­setinn hand­tekinn eftir dómara­á­rásina

Faruk Koca, forseti tyrkneska knattspyrnufélagsins MKE Ankaragucu, hefur verið handtekinn eftir að hann kýldi dómara undir lok viðureignar félagsins gegn Caykur Rizespor í tyrknesku úrvalsdeildinni í gær.

Árásir á dómara séu „krabbamein sem muni drepa leikinn“

Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála hjá FIFA, segir að árásir á dómara séu eins og „krabbamein sem muni drepa leikinn“ eftir að Faruk Koca, forseti Ankaragucu, kýldi dómara í tyrknesku úrvalsdeildinni síðastliðinn mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×