Innlent

Öllum starfs­mönnum Mennta­mála­stofnunar sagt upp

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þórdís Jóna segir að í nýrri stofnun eigi betur að styðja við kennara.
Þórdís Jóna segir að í nýrri stofnun eigi betur að styðja við kennara. Vísir/Arnar

Öllum starfsmönnum Menntamálastofnunar var sagt upp í morgun. Alls störfuðu 46 hjá stofnuninni. Forstjóri stofnunarinnar, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, segir þetta ekki hafa komið starfsmönnum á óvart. Meiri stuðningur við skólasamfélagið verði í nýrri stofnun. 

„Lögin voru samþykkt á Alþingi síðasta föstudag sem felur í sér að stofnunin verður lögð niður 1. apríl næstkomandi,“ segir Þórdís Jóna og á þá við lög um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra lagði fram á haustþingi. Frumvarpið var samþykkt sem lög 8. desember. 

Samkvæmt þeim verður sett á stofn ný stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Þórdís segir hana eiga að vera meiri þjónustustofnun og minni stjórnsýslustofnun. Þórdís Jóna verður forstjóri nýrrar stofnunar.

„Þar verður töluvert breytt og önnur nálgun varðandi skólasamfélagið,“ segir Þórdís Jóna og að miklu meiri áhersla verði lögð á að styðja við kennara og starfsfólk skóla með námsefni í takt við tímann og fleiri matstækjum og skimunarprófum.

„Við viljum verða sterkt bakland fyrir kennara. Vera með fjölbreytt námsefni sem auðveldlega er hægt að aðlaga að ólíkum þörfum,“ segir hún.

Hún bendir á að inni í skólastofu hjá einum kennara sé að finna mörg börn með ólíkar þarfir.

„Það getur verið flókið fyrir kennara að búa til gott próf. Að vita hver staðan er og hvar hver og einn nemandi fellur. Það getur verið gott að fá aðstoð við það.“

Vantar nýtt fólk í nýja stofnun

Þórdís segir að stöður hjá nýrri stofnun verði nú auglýstar og gerir ráð fyrir að stór hluti þeirra sem var sagt upp í dag sæki um. En auk þeirra þurfi meira fólk með getu og hæfni sem ekki er að finna í starfsfólki núverandi stofnunar.

„Við þurfum að verða miklu betri í að mæta nemendum af erlendum uppruna. Við þurfum fólk með reynslu og þjálfun í að gera það. Við þurfum að gera meira af matstækjum og þurfum fólk sem eru sérfræðingar í því. Svo eru það námsgögnin og okkur vantar fleiri í það að búa til fjölbreytt námsefni,“ segir Þórdís Jóna og að hún geri því ráð fyrir að það vanti talsvert af nýju fólki inn í nýja stofnun.

„Allsstaðar í löndunum í kringum okkur er sterk miðlæg þjónusta við skólakerfið. Við höfum ákveðið að þetta hafi meira og minna verið hjá sveitarfélögunum,“ segir Þórdís Jóna og að þótt svo að það geti verið kostir við það þá sé hægt að nýta fjármunina og fólkið miklu betur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×