Enski boltinn

Leikur flautaður af eftir að leik­maður Luton hné niður á vellinum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hlúð að Tom Lockyer á vellinum í dag. Rob Edwards knattspyrnustjóri Luton Town stendur þarna ásamt leikmönnum.
Hlúð að Tom Lockyer á vellinum í dag. Rob Edwards knattspyrnustjóri Luton Town stendur þarna ásamt leikmönnum. Vísir/Getty

Tom Lockyer leikmaður Luton Town í ensku úrvalsdeildinni hneig niður á vellinum í leik liðsins gegn Bournemouth. Leikurinn var stöðvaður um leið og gengu leikmenn til búningsherbergja skömmu síðar.

Tæplega stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik á Vitality Stadium þegar atvikið átti sér stað. Lockyer féll þá til jarðar og voru leikmenn fljótir að bregðast við og kalla eftir aðstoð.

Þjálfari Luton Town, Rob Edwards, hljóp inn á völlinn og skipaði leikmönnum að gefa viðbragðaðilum pláss til að hlúa að Lockyer en augljóst var að um alvarlegt atvik var að ræða. Skömmu síðar gengu síðan leikmenn beggja liða til búningsherbergja og fyrir nokkrum mínútum var tilkynnt að leikurinn yrði ekki flautaður á að nýju.

Leikmenn ganga af velli eftir atvikið í dag.Vísir/Getty

Lockyer var borinn af vellinum en á Skysports kemur fram að liðslæknir Bournemouth hafi staðfest að Lockyer væri með meðvitund.

Þetta er í annað sinn sem Lockyer hnígur niður í leik en svipað atvik átti sér stað í maí í úrslitaleik Luton og Coventry um sæti í úrvalsdeildinni.

Tilfinningarnar báru Rob Edwards ofurliði þegar hann fór og þakkaði áhorfendum á Vitality leikvanginum eftir að leikurinn var flautaður af.Vísir/Getty

Í yfirlýsingu sem Luton Town sendi frá sér eftir leik staðfesti félagið að Lockyer hefði farið í hjartastopp en hafi verið með meðvitund þegar hann var borinn af velli. 

„Hann fékk frekari meðhöndlun á leikvanginum og við viljum enn og aftur þakka læknateymum beggja liða fyrir þeirra vinnu. Tom var fluttur á sjúkrahús og við getum sagt stuðningsmönnum frá því að hann er í stöðugu ástandi. Hann gengst nú undir frekari rannsóknir og fjölskylda hans er hjá honum,“ segir í yfirlýsingu Luton Town.

Fréttin var uppfærð með uppfærðri yfirlýsingu Luton Town.


Tengdar fréttir

Fyrir­liði Luton hneig niður í leiknum mikil­væga

Ó­hugnan­legt at­vik átti sér stað á Wembl­ey, þjóðar­leik­vangi Eng­lendinga fyrr í dag, þegar að Tom Lockyer, fyrir­liði Luton Town, hneig niður í úr­slita­leik um­spils ensku B-deildarinnar gegn Coventry City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×