Í tilkynningu frá Play eru farþegar hvattir til að fylgjast vel með breytingum sem gætu orðið á flugferðum þeirra meðan á verkfallshrinu vegna kjaradeilna flugumferðarstjóra og sáttasemjara stendur.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boðað frekari verkfallsaðgerðir á mánudag og miðvikudag. Aðgerðirnar munu standa yfir í sex klukkustundir, frá klukkan fjögur aðfaranætur mánudags og miðvikudags til klukkan tíu. Langflestar komur og brottfarir Play eru á þeim tíma sem aðgerðir flugumferðarstjóra standa yfir, samkvæmt tilkynningu frá Play.
Ferðum seinkað um sex tíma
Fram kemur að Play þurfi þess vegna að seinka komum á Norður Ameríku-flugi félagsins til Íslands um sex klukkustundir eða til klukkan 10 á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Sömuleiðis muni brottfarir til borgaráfangastaða Play í Evrópu, sem tengjast við Ameríkuflugin, seinka um sex klukkustundir á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Farþegar sem eiga bókaða ferð með flugfélaginu Play á fimmtudag gætu því orðið fyrir minniháttar röskunum meðan leiðakerfið er rétt aftur við.
Þá segir að búist sé við að eftirmiðdagsbrottfarir til sólarlandaáfangastaða í leiðakerfi félagsins muni vera á áætlun, en þó sé farþegum bent á að minniháttar seinkanir gætu orðið á brottförum á þeim ferðum sökum þeirra áhrifa sem verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra munu hafa í næstu viku.
Flugfélagið vinnur nú að því að koma skilaboðum á farþega sína vegna breytinganna og munu þau berast í dag og á morgun.
Birgir Jónsson forstjóri Play ræddi verkfallsaðgerðirnar í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í vikunni. Þar taldi hann að stjórnvöld ættu að stíga inn í deiluna, sem hefur valdið töluverðri röskun og tjóni.