Lífið

Fyrsti trommu­leikari AC/DC látinn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Burgess á tónleikum áströlsku hljómsveitarinnar The Masters Apprentices árið 2002.
Burgess á tónleikum áströlsku hljómsveitarinnar The Masters Apprentices árið 2002. Getty

Ástralski trommuleikarinn Colin Burgess, sem var fyrsti slagverksleikari rokkhljómsveitarinnar AC/DC, er látinn. Burgess varð 77 ára gamall. 

Greint er frá andlátinu á Facebook síðu AC/DC.

 „Mjög sorglegt að heyra af andláti Colin Burgess. Hann var okkar fyrsti trommuleikari og mjög virtur tónlistarmaður. Góðar minningar, rokkaðu í friði Colin,“ segir í tilkynningunni. Dánarorsök Burgess liggur ekki fyrir. 

Burgess tilheyrði frumgerðinni af hljómsveitinni frægu auk bræðranna Angus og Malcolm Young, Dave Evans og Larry van Kriedt. Burgess spilaði inn á fyrsta slagara hljómsveitarinnar, Can I Sit Next to You Girl.

Hann entist þó ekki lengi í hljómsveitinni en ári eftir stofnun hennar var Burgess rekinn úr AC/DC vegna ásakana um að hann hefði drukkið sig fullan á tónleikum þeirra. Burgess hélt því þá fram að honum hefði verið byrlað en sú afsökun bjargaði honum ekki hjá brottvísun. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×