Frakkar voru eina ósigraða lið mótsins fyrir úrslitaleikinn í dag en franska liðið lagði það norska í milliriðlunum. Almennt var talið að þjóðirnar væru með tvö bestu lið mótsins og því búist við spennandi úrslitaleik.
Noregur byrjaði betur í dag og leiddi 8-6 í upphafi leiks. Lykilmaður norska liðsins Henny Reistad, sem glímdi við veikindi, byrjaði leikinn en settist á bekkinn um miðjan fyrri hálfleikinn. Þá tók franska liðið við sér og náði forystunni. Staðan í hálfleik 20-17 Frökkum í vil.

Frakkar náðu fjögurra marka forystu í byrjun seinni hálfleiks og norska liðinu voru mislagðar hendur í sóknarleiknum. Katrine Lunde varði vítakast á mikilvægum tímapunkti sem kveikti í Norðmönnum og þeim tókst að minnka muninn í 23-21.
Frakkar juku þó muninn á ný og voru fjórum mörkum yfir þegar tíu mínútur voru eftir. Það var of mikill munur fyrir lærimeyjar Þóris Hergeirssonar að brúa. Frakkar unnu að lokum 31-28 ög fögnuðu sínum þriðja heimsmeistaratitli.
CHAMPIONNES DU MONDE !!
— Equipes de France de Handball (@FRAHandball) December 17, 2023
C'EST FAIT !! Les Bleues viennent à bout des Norvégiennes et s'offrent un troisième titre mondial !
Un parcours irréprochable, une équipe soudée et une avalanche d'émotions
Merci les BLEUES
31-28 #BleuetFier pic.twitter.com/seWhzvqkEY
Þórir Hergeirsson var að stýra Noregi í sextánda sinn í leik um verðlaun á stórmóti. Noregur hefur unnið níu gullverðlaun undir hans stjórn og átti heimsmeistaratitil að verja en í dag þarf hann að sætta sig við silfrið.
Léna Grandveau og Tamara Horacek voru markahæstar í franska liðinu með fimm mörk hvor en Nora Mörk skoraði átta fyrir Noreg og Stina Breidal Oftedal sex.