Valdimar, sem er uppalinn Fylkismaður, snýr heim til Íslands aðeins 24 ára gamall en segir það einfaldlega hafa heillað mikið að ganga í raðir besta liðs landsins, sem spila mun í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta ári.
Hann lék áður með Strömsgodset í efstu deild Noregs en síðustu tvö ár með Sogndal í norsku 1. deildinni, þar sem hann skoraði sjö mörk á hvorri leiktíð.
„Ég er búinn að vera núna í 1. deildinni í tvö ár og fór því að hugsa um að gera eitthvað annað. Víkingur kom upp snemma, og er í Evrópukeppni og svona, svo það heillaði að koma heim og spila hérna í staðinn fyrir að vera úti,“ sagði Valdimar við Vísi í dag, eftir að Víkingar kynntu þrjá nýja leikmenn til leiks.
Hann segir fleiri kosti vissulega hafa verið í stöðunni fyrir sig:
„En þetta var aðallega Víkingur. Maður heyrði alveg í fleirum en það fór ekki jafnlangt og með Víkingi. Það er margt [sem heillar við Víking]. Þeir eru búnir að gera mjög vel með hópinn og allt í kringum klúbbinn. Þeir sýndu það á síðasta ári þegar þeir völtuðu yfir deildina. Þetta er frábært lið,“ sagði Valdimar sem sjálfur hefur mikið fram að færa:
„Ég ætla rétt að vona það. Ég held að ég sé góð viðbót fyrir liðið og svo er það bara mitt að sanna það,“ sagði Valdimar, staðráðinn í að vinna titla í Víkinni.
„Ég hef unnið 1. deildina en það væri gaman að vinna efstu deildina hérna heima og vonandi bikarinn líka.“