Skoðun

Um hús­næðis­mál á Reykja­lundi

Andrea Hlín Harðardóttir, Edda Björk Skúladóttir og Rúnar Helgi Andrason skrifa

Fagráð Reykjalundar hittist til að ræða þá stöðu sem er komin upp í kjölfar úttektar verkfræðistofunnar Verksýn á húsnæði stofnunarinnar. Í byrjun desember lokaði endurhæfingarstöðin Reykjalundur hluta húsnæðis síns vegna bágs ástands bygginga heilbrigðisstofnunarinnar. Niðurstöðurnar sýna að óheilnæmt er fyrir sjúklinga og starfsfólk að dvelja í umræddum byggingum.Það er ljóst að þetta veldur miklu raski á starfsemi Reykjalundar, bæði þá sem hingað sækja þjónustu, sem og vinnuumhverfi starfsfólks.

Fagráðið hefur fyrr á árinu sent frá sér ályktun vegna ástands húsnæðis Reykjalundar. Eins og þar femur fram er Reykjalundur heilbrigðisstofnun og hlýtur að þurfa að gera ákveðnar kröfur og viðmið um það húsnæði sem þjónustan fer fram í. Húsnæðið hefur til langs tíma ekki staðið undir þeim kröfum sem eðlilegt er að gera fyrir þá starfsemi sem þar er starfrækt. Þörf er á uppbyggingu og eflingu þjónustu Reykjalundar við landsmenn þar sem stofnunin á að vera í vexti og framþróun.

Mikilvægt er að horft sé til framtíðar og tryggja fé til að viðhalda og þróa þá starfsemi sem Reykjalundi er ætlað að veita. Ekki er hægt að treysta á einkaaðila eða félagasamtök í þessu samhengi, eins og verið hefur, heldur þarf að koma inn regluleg fjármögnun fyrir almennu viðhaldi og uppbyggingu húsnæðis til framtíðar. Brýn þörf er á að finna framtíðarlausn á húsnæðismálum endurhæfingarstofnunarinnar.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) setti á laggirnar nefnd árið 2017 til þess að vinna að stefnumótun varðandi endurhæfingu á heimsvísu. Skýrsla nefndarinnar kom út í janúar á þessu ári (https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/rehabilitation) og var sérstaklega horft til framtíðar eða hverju ætti að stefna að árið 2030 (https://www.who.int/initiatives/rehabilitation-2030). Í þessari skýrslu er mikilvægi endurhæfingar undirstrikað og færð rök fyrir því að hún eigi að vera hluti af heilbrigðiskerfi nútímans. Endurhæfing á að vera í boði fyrir alla sem þurfa á henni að halda enda megi gera ráð fyrir því að einn af hverjum þremur þurfi á slíku úrræði að halda einhvern tímann á lífsleiðinni.

Það er mikilvægt að leggja áherslu á það að endurhæfing er ekki lúxus heilbrigðisþjónusta sem er aðeins í boði fyrir þá sem hafa efni á henni. Svo megi ná fram samfélagslegum, efnahagslegum og heilsufarslegum ávinningi af endurhæfingu þarf þverfaglega endurhæfingu sem byggir á raunvísindalegum grunni. Þar hefur Reykjalundur verið í fararbroddi á Íslandi og mikilvægt að svo verði áfram og starfsemin efld frá því sem verið hefur.

Virðingarfyllst,

Fagráð Reykjalundar

Andrea Hlín Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur

Edda Björk Skúladóttir, iðjuþjálfi

Rúnar Helgi Andrason, sálfræðingur




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×