Agnes M. Sigurðardóttir, fráfarandi biskup Íslands, tilkynnti þann 1. janúar að hún myndi láta embætti að einu og hálfu ári liðnu. Í ágúst boðaði kjörstjórn kirkjuþings kosningar á tímabilinu 7. til 12. mars næstkomandi.
Í millitíðinni kom í ljós að Ragnhildur Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri Biskupsstofu hefði endurnýjað ráðningarsamning Agnesar til og með 31. október 2024 án þess kirkjuþing vissi af. Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings sagði þá í sumar að henni þætti undarlegt að undirmaður gæti gert samning við yfirmann sinn með þeim hætti.
Tveir prestar hafa nú gefið kost á sér til embættisins, það eru þær Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogi og Helga Soffía Konráðsdóttir sóknarprestur í Háteigskirkju og prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra.
Helga Soffía tilkynnti það í viðtali á mbl.is í dag að hún gæfi kost á sér til að verða biskup og segir hafa velt þessu lengi fyrir sér.
„Maður verður að vita fyrir víst að maður vilji það sem maður leggur upp með. Maður fer ekki út í svona lagað með hangandi hendi eða óviss í sinni sök,“ segir Helga Soffía í samtali við fréttastofu.
„Ef maður leggur upp í svona vegferð gerir maður það af öllu hjarta og leggur allt sitt í þetta. Þetta er eitt af mörgum störfum í kirkjunni en því fylgir mikil ábyrgð og ég er tilbúin að axla þessa ábyrgð og gefa mig qalla í þetta.“
Guðrún segist minnst tvö ár síðan fólk hafi farið að viðra þetta við hana og ákvörðunin átt sér langan aðdraganda.
„Ég hef haft góðan tíma til að íhuga þetta og máta mig inn í þetta hlutverk. Ég hef lagt þetta í hendur Guðs og finn að ég er tilbúin, hafi ég þann stuðning sem ég þarf. Ég lít á þetta, þó þetta sé leiðtogahlutverk, þá gerir þetta enginn án þess að hafa góðan stuðning, mikinn meðbyr og fólki sér til stuðnings. Það hef ég.“
Hún segir kirkjuna að mörgu leyti á tímamótum og mörg aðkallandi verkefni fyrir næsta biskup. Eitt þeirra hlutverka verði að halda áfram að leiða kirkjuna inn í nútímann.
„Kirkjan er á þónokkuð öðrum stað en hún var þegar síðasti biskup tók við. Við búum í ákaflega fjölbreyttu samfélagi þar sem fólk er með ólíkar trúar- og lífsskoðanir. Kikjan hefur undanfarin ár verið að finna sér stað í þessu samfélagi. Næsti biskup mun halda áfram að leiða það verkefni að finna kirkjunni góðan stað, þar sem hún er sterk um leið og kirkjan ber virðingu fyrir því að það vilji ekki allir tilheyra kirkjunni.“