Enski boltinn

„Ég er glaðasti maður í heimi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rasmus Højlund fagnar marki sínu gegn Aston Villa.
Rasmus Højlund fagnar marki sínu gegn Aston Villa. getty/Visionhaus

Rasmus Højlund sagðist vera glaðasti maður í heimi eftir að hann tryggði Manchester United sigur á Aston Villa með sínu fyrsta deildarmarki fyrir félagið.

United var 0-2 undir í hálfleik í leiknum gegn Villa á Old Trafford í gær en sneri dæminu sér í vil í seinni hálfleik. Alejandro Garnacho jafnaði með tveimur mörkum og Højlund skoraði svo sigurmark United átta mínútum fyrir leikslok.

Þetta var fyrsta deildarmark Danans fyrir United og hann var í skýjunum eftir leikinn.

„Ég er glaðasti maður í heimi núna. Það sást á fagnaðarlátunum. Við trúðum allt til loka og sýndum mikinn karakter,“ sagði Højlund.

„Þetta var einn af bestu dögum lífs míns. Þetta hefur tekið sinn tíma svo ég er ánægður með fyrsta markið og vonandi get ég byggt ofan á þetta og haldið áfram.“

Højlund hafði skorað fimm mörk fyrir United í Meistaradeild Evrópu og því eru mörk Danans á tímabilinu alls orðin sex.

United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×