Enski boltinn

Stjórinn segir að Leno hafi ekki hrint bolta­stráknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var baulað á Bernd Leno út leikinn eftir samskipti hans við boltastrákinn.
Það var baulað á Bernd Leno út leikinn eftir samskipti hans við boltastrákinn. Samsett/Getty

Þýski markvörðurinn Bernd Leno hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hrinda boltastrák í leik Fulham og Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær en knattspyrnustjóri Fulham kom honum til varnar.

Atvikið sem um ræðir varð í seinni hálfleiknum þegar Leno var að flýta sér að ná í boltann til að taka markspyrnu. Fulham var komið 2-0 undir og Leno var með gult spjald á bakinu.

Hinn 31 árs gamli markvörður bað boltastrákinn afsökunar en stuðningsmann Bournemouth bauluðu á hann það sem eftir lifði leiks.

Marco Silva, knattspyrnustjóri Fulham, tjáði sig um atvikið eftir leikinn og kom markverði sínum til varnar. ESPN segir frá.

„Ég veit ekki hvort þeir fengu fyrirmæli um það eða ekki en boltastrákarnir voru alltaf að tefja leikinn,“ sagði Marco Silva.

„Bernd vildi koma boltanum strax í leik og tók hann af boltastráknum. Hann hrinti honum ekki. Hann bað strákinn afsökunar,“ sagði Silva.

Justin Kluivert, Dominic Solanke og Luis Sinisterra skoruðu fyrir Bournemouth í þessum 3-0 sigri á Fulham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×