Morris kom inn á sem varamaður í leiknum á Bramall Lane í gær og átti stóran þátt í tveimur sjálfsmörkum Sheffield United sem tryggðu Luton sigurinn, 2-3.
Dagurinn var þó ekki bara ánægjulegur fyrir Morris því varð fyrir kynþáttaníði úr stúkunni. Morris greindi dómara leiksins, Sam Allison, frá því. Allison varð í gær fyrsti svarti dómarinn sem dæmir leik í ensku úrvalsdeildinni í fimmtán ár.
„Ég heyrði eitthvað frá stuðningsmönnunum í fremstu röð og vissi að það væri best að tilkynna þetta strax og láta þá eiga við þetta,“ sagði Morris.
Málið er nú komið inn á borð lögreglunnar í Suður-Jórvíkurskíri. Sheffield United hefur heitið því að aðstoða lögregluna á allan hátt við rannsókn málsins.
Luton, sem hefur unnið tvo leiki í röð, er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig. Morris hefur leikið alla átján deildarleiki Luton á tímabilinu og skorað þrjú mörk.“