Erlent

Um­deild þingkona skiptir um kjör­dæmi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lauren Boebert, hefur verið mikið milli tannanna á fólki vestanhafs á þessu ári.
Lauren Boebert, hefur verið mikið milli tannanna á fólki vestanhafs á þessu ári. AP/Stephanie Scarbrough

Lauren Boebert, umdeild þingkona Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, hefur lýst því yfir að hún ætli að bjóða sig fram í öðru kjördæmi á næsta ári. Andstæðingur hennar í hennar núverandi kjördæmi, Demókratinn Adam Frisch, hefur safnað mun meira fé en hún hingað til.

Samkvæmt AP fréttaveitunni hefur Frisch safnað að minnsta kosti 7,7 milljónum tala í kosningasjóði sína en Boebert einungis 2,4 milljónum. Í kosningunum 2022 vann Boebert Frish með einungis nokkur hundruð atkvæðum.

Kjördæmið sem hún ætlar að bjóða sig fram í þykir það íhaldssamasta í Colorado en þingmaðurinn Ken Buck hefur lengi setið í því en er að setjast í helgan stein. Í forsetakosningunum 2020 sigraði Trump Joe Biden í umræddu kjördæmi með um tuttugu prósentustigum. Hann sigraði kjördæmi Boebert með átta prósentustigum.

Hún stóð einnig frammi fyrir öflugum andstæðingi í forvali í kjördæmi sínu. Andstæðingur hennar, Jeff Hurd, hefur safnað álíka miklum peningum og hún.

Í myndbandsávarpi sem hún birti í gær segir Boebert að skipti hennar muni hjálpa Repúblikanaflokknum að halda sínu gamla kjördæmi og sakaði ríkt fólk í Aspen í Colorado, George Soros og leikara í Hollywood um að reyna að kaupa þingsætið.

Þar segir Boebert einnig að þetta ár hafi reynst henni erfitt vegna skilnaðar hennar og vegna myndbands af henni og manni í leikhúsi sem vakti mikla hneykslan. Það atvik kom töluvert niður á vinsældum hennar í kjördæmi hennar og hefur hún ítrekað beðist afsökunar á því á fundum í kjördæminu.

Boebert segist ætla að flytja í nýja kjördæmið, þó lög Bandaríkjanna segi til um að þingmenn þurfi ekki að búa í kjördæmunum sem þeir bjóða sig fram í, heldur í ríkinu sem kjördæmið er í.

Naut strax mikillar athygli

Áður en Boebert var kjörin á þing árið 2020 barðist hún fyrir auknum réttinum skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum og átti veitingastað í bænum Rifle, þar sem þemað var skotvopn. Eitt af því fyrsta sem hún gerði á þingi var að reyna að komast inn í þingsal með skammbyssu.

Hún varð fljótt mjög áberandi meðal helstu stuðningsmanna Donalds Trump á þingi og hefur tilheyrt hópi innan þingflokks Repúblikanaflokksins sem kallast Freedom Caucus.

Þingmenn sem tilheyra þessum hópi komu að því að velta Kevin McCarthy úr embætti þingforseta í haust.


Tengdar fréttir

McCarthy enn í gíslingu uppreisnarmanna

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings er enn lömuð vegna uppreisnar hóps fjar-hægri þingmanna Repúblikanaflokksins. Einungis fimm dagar eru í að stöðva þarf rekstur ríkisins, finnist ekki samkomulag um fjárlagafrumvarp.

Kennir sér­­visku um þuklið og reykingarnar í leik­húsinu

Fulltrúadeildarþingkonan Lauren Boebert kennir sérviskulegum persónuleika sínum um hegðun sína á leiksýningunni Beetlejuice í vikunni. Boebert og kærasta hennar var sparkað úr leikhúsi í Denver fyrir að reykja rafrettu og vera með háreysti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×