„Við höfum aldrei fengið þríkelfinga áður og það gerðist heldur aldrei í búskapartíð foreldra minna, svo á þeim tæplega 30 árum sem hér hefur verið stunduð nautgriparækt hafa aldrei áður fæðst þríkelfingar. Kýrin var borin sjálf þegar við komum í fjósið svo það er erfitt að segja hvað hann tók langan tíma. Hann gekk þó ekki betur en svo að tveir kálfanna voru dauðir, þó erfitt sé að segja til um hvort þeir hafi drepist í fæðingunni sjálfri en þess má geta að kýrin, sem heitir Ingibjörg bar 11 dögum fyrir tal, en hún var sett 8. janúar,“ segir Guðrún Eik Skúladóttir, kúabóndi á bænum.
Hún segir að líklegast sé að kálfurinn, sem lifði hafi komið fyrstur og systkini hans hafi kafnað í legvatninu og þess vegna fæðst dauð, en það sé ekki hægt að fullyrða um það.

Mjög sjaldgæft
Mjög sjaldgæft er að þríkelfingar komi í heiminn. „Jú samkvæmt Baldri Helga Benjamínssyni fyrrum framkvæmdastjóra Landssambands kúabænda og núverandi bónda á Ytri-Tjörnum eru líkurnar á þríkelfingum 1:20.000,“ segir Guðrún Eik.
Hvað heitir mamma kálfanna og hvernig hefur hún það eftir?
„Mamman er númer 856 og heitir Ingibjörg. Þetta var hennar þriðji burður og hefur hún því átt 5 kálfa í 3 burðum. Það er þó ekki met hér á bæ, en kýrin Nótta nr. 800 bar 7 kálfum í 4 burðum, en hún var tvíkelfd 3 ár í röð. Ingibjörg er frekar þreytt og slöpp eftir átökin. Eins og algengt er við þriðja burð fékk hún doða og hefur dagurinn því mikið til farið í að sinna henni,“ segir Guðrún Eik að lokum.
