„Ég mun setja upp bekkpressu og litla box-aðstöðu á Bessastöðum,“ skrifar skemmtikrafturinn Dóri DNA á samfélagsmiðlinum X. Fyrr gaf hann það út að framboð væri væntanlegt gegn því að fimm hundruð manns líkuðu við færslu hans á sama miðli.
Hér með tilkynni ég framboð mitt til forseta Íslands.
— Halldór Halldórsson (@doridna) January 1, 2024
Montnar kerlingar úr viðskiptalífinu beware. https://t.co/8c8eDKneGc
„Mig vantar kosningstjóra og fjárhagslega bakhjarla,“ skrifaði Dóri enn fremur. „Kosningaherferðin verður keyrð á svona 60% Andra Snæs dæmi og 40% funked out gangster twist.“
Handboltamarkmaðurinn Björgvin Páll Gústavsson hefur einnig gefið út yfirlýsingu, þar sem hann segist ekki hafa tekið neina ákvörðun um forsetaframboð. Það geri hann til að svara spurningunni „sem er strax farin að banka upp á hjá mér úr ýmsum áttum,“ eins og Björgvin Páll orðar það.
„Eina sem ég veit er að èg á eftir að sakna Guðna og Elizu. Öll mín orka mun fara í fjölskylduna næstu 11 daga eða þar til farið verður út á EM í handbolta. Þar bíður okkar skemmtilegt og krefjandi verkefni sem þarf fulla einbeitingu á. Gleðilegt nýtt ár og sjáumst á EM! Áfram Ísland!“ skrifar Björgvin Páll og birtir mynd af jólakorti stílað á hann frá forsetahjónunum á Bessastöðum, Guðna og Elízu.
Björgvin Páll velti einnig borgarstjórastólnum fyrir sér, fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2022. Svo fór að Björgvin hætti við framboðið mánuði síðar, þar sem hann hafi ekki haft „allt liðið á bak við sig“