Enski boltinn

Salah skipti um skó eftir að hann klúðraði vítinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah svekkir sig yfir því að hafa klúðrað víti en markvörðurinn Martin Dúbravka fagnar.
Mohamed Salah svekkir sig yfir því að hafa klúðrað víti en markvörðurinn Martin Dúbravka fagnar. AP/Jon Super

Mohamed Salah skoraði tvívegis í sigri Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og er nú markahæstur í deildinni ásamt Erling Haaland hjá Manchester City. Báðir hafa skorað fjórtán deildarmörk.

Salah hefði getað skorað fleiri mörk í leiknum því hann lét verja frá sér vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum.

Eftir leikinn sagði Egyptinn frá því að hann hafði skipt um skó í hálfleik. Bæði mörkin hans komu í nýju skónum í seinni hálfleiknum.

„Já ég skipti um skó. Ég klikkaði á vítaspyrnunni í hinum skónum. Þetta er ekki hjátrú af því að ég spila í mörgum mismunandi skóm. Þegar mér finnst ég þurfa að vinna aðeins með hausinn minn þá breyti ég um skó,“ sagði Mohamed Salah við Sky Sports eftir leikinn. ESPN segir frá.

„Ég vildi ekki mæta í seinni hálfleikinn að hugsa um það að ég skoraði ekki þessum skóm. Ég róaði hugann og einbeitti mér að leiknum. Við verðum að halda ró okkar. Ég klúðraði vissulega vítinu. Í hálfleik hugsaði ég: Vil ég kveðja liðið með svona frammistöðu? Alls ekki,“ sagði Salah.

„Ég varð því að vera einbeittur, stíga upp og gera útslagið í þessum leik. Mér tókst það, sagði,“ sagði Salah.

Hann fékk líka að taka víti í seinni hálfleik og skoraði þá af öryggi.

Hann er að fara til móts við egypska landsliðið og missir því af mörgum leikjum Liverpool á næstunni. Egyptaland tekur þátt í Afríkukeppninni í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×