Hinn sextán ára gamli Littler stóð sig vel í fyrstu heimsókn sinni á stærsta sviðið og var meðal annars 4-2 yfir í settum en þá fór Humphries í gang og tryggði sér titilinn með því að vinna fimm sett í röð.
Humphries vann sér inn fimm hundruð þúsund pund í verðlaunafé eða meira en 87,6 milljónir íslenskra króna.
„Ég finn ekki orðin til að lýsa því hvernig mér líður,“ sagði sigurreifur Luke Humphries við Sky Sports eftir að úrslitin voru ljós.
"There was a time in my life when I was really depressed..."
— Sky Sports Darts (@SkySportsDarts) January 3, 2024
Luke Humphries explains what he's been through ahead of becoming world champion pic.twitter.com/IAgZHsR8qu
Ævintýri táningsins endaði því í gær en Humphries spáir stráknum miklum frama í næstu framtíð.
„Ég varð að taka þennan af því að hann mun fljótlega taka yfir píluna. Hann er ótrúlegur leikmaður. Þegar ég var að nálgast sigurinn þá hélt hann alltaf áfram. Ég er stoltur af spilamennsku minni í kvöld,“ sagði Humphries. Ungstirnið fékk líka mikið hrós frá honum.
„Hann er ótrúlegt efni og ég varð því að vinna þennan leik í kvöld. Ég er viss um það að hann mun vinna marga titla í framtíðinni,“ sagði Humphries. Hann viðurkenndi að síðasta kastið reyndi á taugarnar.
„Hendurnar mínar skulfu áður en ég náði tvöföldu áttunni í lokin en þetta datt fyrir mig. Ég er heimsmeistari og númer eitt á heimslistanum. Ég gæti ekki beðið um meira,“ sagði Humphries.
„Luke á þetta skilið,“ sagði Littler.
„Ég komst í úrslitaleikinn og gæti ekki komist í annan úrslitaleik næstu fimm eða tíu ár. Við vitum ekki hvernig þetta spilast en nú get ég sagt að ég sé næstbestur. Ég vil bara halda áfram og reyna að vinna þetta í framtíðinni,“ sagði Littler. Hann hoppar upp um 130 sæti á heimslistanum og komst inn á topp 32.