Lyfið Zosurabalpin vann á afar ónæmum undirgerðum Crab (Carbapenem-resistant Acinetobacter baumannii) í músum, sem þjáðust af lungnabólgu og sýklasótt.
Crab er meðal þriggja bakteríutegunda sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir einna mikilvægast að rannsaka og þróa ný lyf gegn en hinar eru umhverfisbakteríur (Pseudomonas aeruginosa) og þarmabakteríur (Enterobacteriaceae).
Andrew Edwards, sérfræðingur í sameindalíffræði við Imperial College í Lundúnum, segir Crab oft finnast á sjúkrahúsum og ógna sjúklingum, ekki síst þeim sem reiða sig á öndunarvélar. Bakterían sé ekki „aggressív“ en erfið viðureignar þar sem hún sé ónæm fyrir fjölmörgum sýklalyfjum.
Erfiðastar viðureignar eru bakteríur með nokkurs konar varnarhjúp, sem er meðal annars gerður úr fitufjölsykru (LPS), sem gerir bakteríunum bæði kleift að komast af í óhagfelldu umhverfi og forðast atlögur ónæmiskerfisins.
Engin ný sýklalyf gegn umræddum bakteríum hafa komið á markað í 50 ár.
Zosurabalpin er sagt virka þannig að það hindrar fitufjölsykruna frá því að berast í varnarhjúp bakteríunnar, sem gerir það að verkum að hún deyr. Uppgötvunin er ekki sögð munu uppræta sýklalyfjaónæmi en mögulega leggja grunn að þróun nýrra lyfja gegn fjölónæmum bakteríum.