Erlent

Fékk ekki skil­orð og réðst á dómarann

Árni Sæberg skrifar
Upptökur úr dómsal í Las Vegas eru ekki í háskerpu.
Upptökur úr dómsal í Las Vegas eru ekki í háskerpu. Skjáskot

Deobra Redden, þrítugur karlmaður frá Las Vegas í Bandaríkjunum, stökk yfir dómarabekkinn og réðst á dómarann í máli hans vegna líkamsárásar í gær. Hann virðist hafa verið ósáttur með ákvörðun dómarans um að fallast ekki á beiðni hans um skilorðsbundinn dóm.

Redden hafði játað tilraun til stórfelldrar líkamsárásar og í gær fór fram þinghald til ákvörðunar refsingar hans. Verjandi Reddens óskaði eftir því við dómara málsins, Mary Kay Holthus, að hún veitti honum skilorðsbundna refsingu.

„Ég skil þá ósk vel en ég held að það sé kominn tími á að hann fái almennilega refsingu. Ég einfaldlega get það ekki með þessa brotasögu,“ hefur The New York Times eftir dómaranum og reifar brotaferil mannsins stuttlega. Hann hefur meðal annars hlotið fangelsisdóma árin 2015 og 2021. Annars vegar fyrir tilraun til þjófnaðar og hins vegar heimilisofbeldi.

Redden brást ókvæða við þeirri neitun dómarans, vippaði sér yfir dómarabekkinn og réðst á Holthus, sem er á sjötugsaldri. Myndskeið af árásinni má sjá hér að neðan:

Í frétt New York Times segir að Holthus hafi særst í árásinni og að fylgst sé með líðan hennar. Þá hafi dómsvörður einnig særst og líðan hans sé stöðug.

Í myndskeiðinu hér að ofan sést hvernig dómverðir og aðrir starfsmenn dómsins stökkva til og reyna að ná Redden af Holthus á meðan þeir láta högg dynja á honum. Dómstóllinn hefur þakkað þeim fyrir skjót viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×