Handbolti

Gísli Þor­geir Í­þrótta­maður ársins 2023

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti frábært ár með Magdeburg og íslenska landsliðinu.
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti frábært ár með Magdeburg og íslenska landsliðinu. Vísir/Hulda Margrét

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður Magdeburg og íslenska handboltalandsliðsins, var kjörinn Íþróttamaður ársins 2023 af Samtökum íþróttafréttamanna.

Þetta er í fyrsta sinn sem Gísli hlýtur þessa nafnbót en þriðja árið í röð sem handboltamaður er valinn Íþróttamaður ársins. Ómar Ingi Magnússon, samherji Gísla hjá Magdeburg og íslenska landsliðinu, hlaut þessa nafnbót 2021 og 2022.

Gísli fékk fimm hundruð stig í kjörinu, 128 stigum meira en sundkappinn Anton Svein McKee sem varð í 2. sæti. Fótboltakonan Glódís Perla Viggósdóttir varð í 3. sæti með 326 stig. Þau þrjú voru langefst í kjörinu.

Gísli átti frábært ár með Magdeburg. Hann var valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar og verðmætasti leikmaður úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu sem Magdeburg vann. Gísli skoraði sex mörk í úrslitaleiknum gegn Kielce þrátt fyrir að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitaleiknum gegn Barcelona deginum áður. Gísli var sjöundi markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar með 87 mörk.

Þá var Gísli í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu sem lenti í 12. sæti á heimsmeistaramótinu í Póllandi og Svíþjóð.

Hlaupa- og skíðakonan Andrea Kolbeinsdóttir varð í 4. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins og fótboltakonan Sveindís Jane Jónsdóttir í því fimmta.

Íþróttamaður ársins

  1. Gísli Þorgeir Kristjánsson, handbolti 500
  2. Anton Sveinn McKee, sund 372
  3. Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti 326
  4. Andrea Kolbeinsdóttir, frjálsíþróttir 101
  5. Sveindís Jane Jónsdóttir, fótbolti 94
  6. Elvar Már Friðriksson, körfubolti 93
  7. Jóhann Berg Guðmundsson, fótbolti 73
  8. Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingar 69
  9. Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikar 53
  10. Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund 47



Fleiri fréttir

Sjá meira


×