Erlent

For­dæma Banda­ríkja­menn vegna drónaárásar í Baghdad

Samúel Karl Ólason skrifar
Loftárásin var gerð á höfuðstöðvar Harakat al-Nujaba, sem er írakskur vopnahópur sem nýtur stuðnings Írans og hefur komið að árásum á bandaríska hermenn þar í landi.
Loftárásin var gerð á höfuðstöðvar Harakat al-Nujaba, sem er írakskur vopnahópur sem nýtur stuðnings Írans og hefur komið að árásum á bandaríska hermenn þar í landi. AP/Hadi Mizban

Ríkisstjórn Íraks fordæmdi í gær drónaárás Bandaríkjamanna í Baghdad, höfuðborg landsins, í gærmorgun. Í árásinni féll leiðtogi vopnahóps sem tengist yfirvöldum í Íran og öryggissveitum Íraks. Sá er sagður hafa skipulagt fjölmargar árásir á bandaríska hermenn í Írak.

Talsmaður ríkisstjórnar Íraks sagði í gærkvöldi að árásin væri gróft brot á fullveldi Íraks og líkti henni við hryðjuverk.

Loftárásin var gerð á höfuðstöðvar Harakat al-Nujaba, vopnahóps sem leiðtoginn tilheyrði, en hann hét Abu Taqwa. Hann var einnig einn af leiðtogum PMF-sveitanna svokölluðu (Popular Mobilization Force) en það eru regnhlífarsamtök vopnaðra hópa sem myndaðir voru til að berjast gegn vígamönnum Íslamska ríkisins.

PMF-sveitirnar heyra formlega undir írakska herinn en eru í raun sjálfstæðar. Margar sveitanna tengjast klerkastjórn Írans nánum böndum. Harakat al-Nujaba hópurinn var árið 2019 skilgreindur af yfirvöldum í Bandaríkjunum sem hryðjuverkasamtök.

Bandaríkjamenn segja Abu Taqwa hafa komið að skipulagningu árása á bandaríska hermenn í Írak, í kjölfar átakanna milli Ísraela og Hamas-samtakanna á Gasaströndinni. Víga- og vopnahópar tengdir Íran hafa gert fjölmargar árásir á bandaríska hermenn í bæði Írak og Sýrlandi á undanförnum vikum.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sagði í gær að árásirnar hefðu verið minnst 115. Bandaríkjamenn höfðu hingað til brugðist við þeim árásum með örfáum loftárásum í Sýrlandi og í Írak. Hingað til hafa árásirnar í Írak beinst að öðrum vígahópum sem tengjast Íran, samkvæmt frétt New York Times.

Sjá einnig: Íranskir hermenn féllu líklega í árásum Bandaríkjamanna

Í yfirlýsingu sem ráðuneytið gaf út í gær segja Bandaríkjamenn að árásin á Abu Taqwa hafi verið nauðsynleg. Hún hafi verið gerð í sjálfsvörn og að engir óbreyttir borgarar hafi fallið í henni.

Í árásinni var dróni notaður til að skjóta eldflaug að bíl sem var fyrir utan höfuðstöðvar Harakat al-Nujaba. Auk Abu Taqwa féllu tveir aðrir í árásinni.

Talsmaður Írakska hersins hefur einnig gagnrýnt Bandaríkjamenn vegna árásarinnar.

Bandarískir hermenn börðust gegn vígamönnum Íslamska ríkisins, sem gera enn reglulega árásir í Írak, þó samtökin hafi misst yfirráðasvæði þeirra í landinu. Undanfarin ár hafa hermennirnir unnið að þjálfun írakskra öryggissveita.

Leiðtogar írakskra vopna- og vígahópa sem tengjast Íran hafa eins og áður segir gert fjölmargar árásir á bandaríska hermenn, með því yfirlýsta markmiði að þeir yfirgefi Írak. Mohammed Shia al-Sudani, forsætisráðherra Íraks, sem er sagður vinveittur Íran, lýsti því yfir í síðustu viku að ríkisstjórn hans væri að vinna að því að binda enda á veru erlendra hermanna í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×