Erlent

Sýpur seyðið af á­rás á dómara

Samúel Karl Ólason skrifar
Upptökur úr dómsal í Las Vegas eru ekki í háskerpu.
Upptökur úr dómsal í Las Vegas eru ekki í háskerpu. Skjáskot

Maður sem stökk yfir dómarabekkinn og réðst á dómarann í máli hans í Las Vegas í vikunni, stendur frammi fyrir sjö nýjum ákærum eftir árásina. Hann mun þurfa að mæta aftur fyrir sama dómara í næstu viku.

Deobra Redden réðst á Mary Kay Holthus, dómara, á miðvikudaginn, vegna líkamsárásar. þegar hún neitaði beiðni hans um skilorðsbundinn dóm, eftir að hann játaði stórfellda líkamsárás.

„Ég skil þá ósk vel en ég held að það sé kominn tími á að hann fái almennilega refsingu. Ég einfaldlega get það ekki með þessa brotasögu,“ sagði Holthus í dómsal á miðvikudaginn.

Redden brást ókvæða við þeirri neitun dómarans, skutlaði sér yfir dómarabekkinn og réðst á Holthus, sem er á sjötugsaldri.

Sjá einnig: Fékk ekki skilorð og réðst á dómarann

Redden átti að mæta aftur fyrir dómara í gær vegna nýju ákæranna en neitaði. Hann mun mæta aftur fyrir sama dómara og hann réðst á mánudaginn.

Aðstoðarmaður dómarans, Michael Lasso, var fyrstur til að koma henni til varnar og síðan komu löggæslumenn en einn þeirra var fluttur á sjúkrahús vegna skurðar á enni og vegna þess að öxl hans fór úr lið.

Annar dómari sem las yfirlýsingu frá Holthus í gær þakkaði Lasso sérstaklega fyrir skjót viðbrögð og segir hann líklega hafa komið í veg fyrir að hún hafi hlotið meiri skaða, samkvæmt frétt Sky News. Hún slapp vel og mætti aftur til vinnu í gær.

Samkvæmt héraðsmiðlinum Las Vegas Review-Journal er búið að bæta sjö ákærum á Redden. Meðal annars hefur hann verið ákærður fyrir árásina á dómarann og aðra starfsmenn dómstólsins. Hann hefur einnig verið ákærður fyrir ógnun og fyrir að brjóta af sér á skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×