Innlent

Fyrstu boð um að kviknað væri í fram­halds­skólanum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vel tókst að slökkva eldinn.
Vel tókst að slökkva eldinn. Slökkvilið Norðurþings

Eldur kom upp í sorpgeymslu við Framhaldsskólann á Húsavík á þriðja tímanum í nótt. Töluverður viðbúnaður var á vettvangi þar sem slökkviliði barst útkall um að eldur hefði komið upp í skólanum. Líkur eru taldar á að um íkveikju hafi verið að ræða.

Rúnar Traustason, varðstjóri hjá slökkviliðinu í Norðurþingi, segir í samtali við Vísi að þegar slökkvilið hafi mætt hafi sorpgeymslan verið í ljósum logum.

Hann segir að í geymslunni hafi verið tvær stórar ruslatunnur á hjólum. „Þær voru báðar horfnar og skýlið nánast líka þegar við komum. Oft eru svona skýli alveg upp við húsnæðið en sem betur fer var það ekki þannig í þetta skiptið.“

Að sögn Rúnars var einn dælubíll sendur á vettvang. Slökkt var í geymslunni með nýrri froðutækni. Hann segir ljóst að ekki kvikni í slíkri geymslu af sjálfu sér.

„Hvort það sé íkveikja eða óhapp, tengt flugeldum, maður veit það ekki. En það kviknar ekki í svona geymslu af sjálfri sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×