Skoðun

Þegar jöfnunar­tæki snýst upp í and­hverfu sína – um frí­stunda­styrk sveitar­fé­laga

Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir skrifar

Það var gæfuspor sem var stigið þegar frístundastyrkur sveitarfélaga var tekinn upp á sínum tíma með það að markmiði að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu tómstundastarfi og tel ég að vel hafi tekist til að mörgu leyti.

Nú er komin töluvert löng reynsla á þennan styrk og það sem hefur komið á daginn er að stór hópur barna nýtir ekki styrkinn. Ráðist hefur verið í ýmis átaksverkefni til að kynna styrkinn fyrir foreldrum, og þá sérstaklega foreldrum barna af erlendum uppruna, en samt er enn stór hópur barna og ungmenna sem ekki nýtir styrkinn sinn.

Ég hef mikið velt fyrir mér hvað veldur og hvernig hægt er að virkja þennan hóp, og tel ég að eitt af því helsta sem kemur í veg fyrir að þessi hópur nýti styrkinn (og hefur þ.a.l. mjög misjöfn tækifæri til að stunda áhugamálið sitt), er að í mörgum sveitarfélögum er of stífur rammi utan um hvernig hægt er að nýta styrkinn.

Sveitarfélög setja hvert um sig reglugerð um notkun frístundastyrksins og er algengt að þær kvaðir séu á að eingöngu sé hægt að nýta styrkinn í íþróttir og tómstundir sem eru 8 vikur eða lengur.

Í Borgarbyggð voru kvaðirnar 10 vikur þegar ég var kjörin aðalfulltrúi í sveitarstjórn fyrir tæpum tveimur árum. Ég hef síðan þá reynt að fá málefnaleg rök fyrir þessum tímakvöðum. Eflaust var upphaflega hugsunin sú að halda börnum og ungmennum í reglulegri virkni yfir lengri tíma en ég hef þó ekki fengið það staðfest.

Ég hef barist fyrir því inni í fræðslunefnd Borgarbyggðar að afnema þessar tímakvaðir í okkar sveitarfélagi, sem skilaði því að meirihlutinn lækkaði kvaðirnar í 8 vikur, án þess þó að geta fært ein málefnaleg rök fyrir því, og mun engu breyta. Enn munu 30% barna í Borgarbyggð ekki hafa tækifæri til að nýta styrkinn sinn. Það breytti engu um þeirra afstöðu þó að þeim væri bent á að það væri að fara í gang fjögurra vikna sundnámskeið fyrir börn í 1. og 2. bekk sem ekki væri hægt að nýta frístundastyrkinn í. Því eru nú mögulega einhver börn sem sitja heima með sárt ennið og geta ekki farið á sundnámskeið, þrátt fyrir að frístundastyrkurinn hafi endurnýjast um áramótin, og mun mögulega standa óhreyfður þar til hann fyrnist aftur um þau næstu.

Meirihlutinn ákvað hins vegar að lækka aldurinn niður í 5 ára, sem er vel, en það eru ekki mörg 8 vikna, eða lengri, námskeið í boði fyrir 5 ára börn í Borgarbyggð, og því enn verið að mismuna þeim börnum sem finna sig ekki í þeim fáu tómstundum sem í boði eru sem uppfylla þessi skilyrði.

Mörg rök mæla með því að afnema þessar tímakvaðir

Eins og ég segi að ofan þá hef ég ekki enn heyrt málefnaleg rök fyrir því að setja þessar stífu kvaðir en það er vel hægt að færa málefnaleg rök fyrir því að afnema þær.

Í fyrsta lagi þá er þetta ekkert nema forræðisshyggja, pólitíkinni ætti ekki koma það við hvernig foreldrar ráðstafa styrk barna sinna, svo lengi sem um er að ræða löglega tómstundastarfsemi undir handleiðslu fagaðila.

Í öðru lagi þá eru ekki næstum því öll börn og ungmenni sem finna sig í þeim tómstundum sem ná yfir margra vikna tímabil og þeirra frístundastyrkur fyrnist því ár eftir ár, og það hvort þau hafi tækifæri til að stunda það áhugamál sem þau hafa áhuga á ræðst því eingöngu af fjárhag foreldra þeirra.

Í þriðja lagi þá gæti það að afnema tímakvaðir líka verið hvati fyrir bæði íþróttafélög og aðra sem halda utan um einhvers konar tómstundastarf að bjóða upp á styttri námskeið, og efnahagur fjölskyldunnar myndi ekki koma í veg fyrir að barnið gæti tekið þátt. Þetta gæti komið sér sérstaklega vel á landsbyggðinni, þar sem úrval íþrótta- og tómstunda er oft af skornum skammti, og einnig börnum og ungmennum sem glíma við ýmis konar fatlanir og hafa hvorki aðgengi að né áhuga á þeim tómstundum sem boðið er upp á, auk þess sem styttri námskeið henta þeim oft betur.

Að afnema tímakvaðir myndi þannig útvíkka notkunarmöguleika styrksins og hver veit hvaða fræjum er sáð á dags- og helgarnámskeiðum þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að uppgötva og rækta hæfileika sína? Þar fá þau jafnframt tækifæri til að kynnast öðrum börnum með sama áhugamál og í einhverjum tilvikum möguleika á rjúfa félagslega einangrun.

Einhver börn og ungmenni myndu jafnvel fá tækifæri til að fara í sumarbúðir með jafnöldrum sínum og skapa þannig minningar sem þau hefðu annars ekki tök á þar sem fjárhagur fjölskyldunnar býður ekki upp á það. Frístundastyrkur gæti þar létt verulega undir.

Og svo mætti lengi telja.

Eru sveitarfélögin að brjóta á réttindum barna?

Ég hef leitað svara og reynt að fá málefnaleg rök fyrir því að setja svona stífar kvaðir á frístundastyrkinn en hef enn ekki fengið nein. Ég hins vegar velti því fyrir mér hvort sveitarfélög séu með þessum kvöðum hreinlega að brjóta á mannréttindum barna. Í mínum huga er það allavega klár mismunun að gera sumum börnum það kleift að stunda áhugamálin sín en öðrum ekki þar sem það gefur augaleið að börn sem búa við lakari félagslegar aðstæður fá ekki sömu tækifæri og önnur börn[1].

Að setja svona miklar skorður á hvernig hægt er að nýta styrkinn er allavega í hrópandi ósamræmi við Lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna nr.86 (2021) þar sem 1. gr. laganna segir orðrétt: „Lögum þessum er ætlað að stuðla að farsæld barna. Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.”

Í 2. gr. sömu laga segir jafnframt:

„Merking hugtaka í lögum þessum er sem hér segir:

1. Almenn þjónusta í þágu farsældar barns: Allt skipulagt starf annarra en þjónustuveitenda sem á þátt í að stuðla að farsæld barns, t.d. þjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðinga, íþrótta-, lista- og æskulýðsstarf og starfsemi frjálsra félaga- og hagsmunasamtaka.

3. Farsæld barns: Aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.”

Einnig ganga þessar stífu kvaðir að mörgu leyti gegn 23. og 31. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr.18 (1992) sem kveða á um virka þátttöku í samfélaginu, möguleika til tómstundaiðju og rétt á að fá að viðeigandi og jöfn tækifæri til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju[2].

Með því að hafa þessar stífu kvaðir á notkun frístundastyrksins er klárlega verið að setja hindranir þegar kemur tómstundaiðkun barna og koma þannig í veg fyrir að öll börn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum.

Ég vil hvetja alla foreldra til að kynna sér hvernig málum er háttað í sínu sveitarfélagi og hvort verið sé að brjóta á réttindum þeirra barna.

Ég vil jafnframt hvetja öll sveitarfélög til að endurskoða sína reglugerð og sjá hvort ekki sé hægt að gera betur í þessum málaflokki. Og ef það á að halda í þessar tímakvaðir þá er lágmark að geta fært málefnaleg rök fyrir þeim.

Höfundur er sveitarstjórnarfulltrúi A-lista í Borgarbyggð.


[1] Réttur til jafnræðis og bann við mismunun er eitt af grundvallarhugtökum í alþjóðlegum mannréttindalögum. Hægt er að skilgreina mismunun sem hverskonar aðgreiningu, útilokun eða forgangsrétt sem byggður er t.d. á kynþætti, litarhafti, kynferði, trú, heilsufari, aldri, fötlun, stjórnmálaskoðunum, þjóðaruppruna eða félagslegri stöðu.

https://www.humanrights.is/is/mannrettindi-og-island/ymiss-mannrettindi/bann-vid-mismunun

2 https://www.althingi.is/lagas/150b/1992018.2c5.html




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×