Enski boltinn

Keane fannst Ian Wright vera of góður við Höjlund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ramusi Höjlund tókst ekki að skora fyrir Manchester United á móti Wigan Athletic í gærkvöldi þrátt fyrir að fá fullt af færum.
Ramusi Höjlund tókst ekki að skora fyrir Manchester United á móti Wigan Athletic í gærkvöldi þrátt fyrir að fá fullt af færum. Getty/Richard Sellers

Manchester United komst áfram í enska bikarnum í gærkvöldi eftir 2-0 sigur á Wigan en danski framherjanum Ramus Höjlund tókst ekki að skora mark þrátt fyrir góð færi.

Mörk frá þeim Diogo Dalot og Bruno Fernandes sáu til þess að United liðið komst áfram í fjórðu umferðina.

Højlund óð í færum í fyrri hálfleiknum en Dananum ætlar að ganga mjög illa að finna skotskóna sína í búningi United. Hann átti skot í slá og var klaufalegur þegar hann var kominn í góðar stöður.

Í hálfleik var Manchester United goðsögnin Roy Keane líka allt annað en ánægður þrátt fyrir að liðið væri 1-0 yfir. Það var bara eins og olía á eldinn þegar Ian Wright sagðist finna til með Höjlund.

„Þú ert allt of góður við hann. Ég væri brjálaður út í hann,“ sagði Roy Keane í útsendingu ITV frá leiknum en Manchester Evening News segir frá. United var þarna að spila við C-deildarlið sem er í fallbaráttu í sinni deild.

„Við vildum að United sýndi hvað liðið gæti í kvöld en þeir hafa aftur á móti klúðrað hverju dauðafærinu á fætur öðru. Þegar framherji klúðrar færum þá er hægt að segja að það sé óheppni en svo eru það þessi dauðafæri,“ sagði Keane.

„Komdu boltann bara í markið og hættu þessari vitleysu,“ sagði Keane.

Hinn tvítugi Højlund hefur skorað 6 mörk í 24 leikjum með Manchester United en fimm þeirra komu í Meistaradeildinni. Hann hefur bara skorað eitt mark í átján deildar- og bikarleikjum með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×