Árið 1972 þegar Margrét Þórhildur Danadrottning tók við krúnunni var sérstök kaka bökuð henni til heiðurs, Margrétarkaka, sem hefur verið hluti af daglegu úrvali konditorísins í um það bil 52 ár.
Fram kemur á Facebook-síðu La Glace að báðar kökurnar hafi verið bakaðar með hráefnum sem þoli ferð með pósti. Sú ákvörðun var tekin til að tryggja að allir Danir um land allt gætu fengið að smakka bita í tilefni af valdaskiptunum.
Megin uppistaðan í Friðrikskökunni er marsípan, heslihnetupralín, saltkaramella, karamellutrufl, hjúpað dökku súkkulaði. Til að setja punktinn yfir i-ið er kakan toppuð með súkkulaðiplötu með gyllingu.
Í frétt danska ríkissjónvarpsins kemur fram að kostir kökunnar séu þeir að hún sé karlmannleg, eins og því er lýst, og um leið glæsileg með frönsku ívafi.
Eins og fram hefur komið tilkynnti Margrét Þórhildur Danadrottning öllum að óvörum í áramótaávarpi sínu að hún ætlaði sér að stíga til hliðar og afhenda syni sínum, Friðriki prins, krúnuna.
Nákvæmlega 52 árum eftir krýningu hennar mun valdatíð hennar því taka enda. Það verður þann 14. janúar og hinn 55 ára gamli Friðrik mun taka við stjórnartaumunum.
Krónprinsinn og verðandi konungur er fjögurra barna faðir. Hann hefur verið áberandi í umræðu um umhverfismál á síðustu árum og talar fjögur tungumál.