Erlent

Hútar hóta hefndum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mótmælendur brenna fána Bandaríkjanna, Ísraels og Bretlands fyrir utan breska sendiráðið í Sana.
Mótmælendur brenna fána Bandaríkjanna, Ísraels og Bretlands fyrir utan breska sendiráðið í Sana. AP/Vahid Salemi

Hútar hóta hefndaraðgerðum vegna sprengjuárásum sem gerðar voru af Bretlandi og Bandaríkjunum í gærnótt. Tugþúsundir komu saman í Sana höfuðborg landsins til að mótmæla og krefjast aðgerða.

Fimm létust og sex særðust í árásunum í gærnótt sem höfðu 73 skotmörk í og við höfuðborg Jemen, hafnarborgina Húdaída og á þremur öðrum svæðum í landinu. Bandaríkin og Bretland segja árásirnar hafa átt rétt á sér og að verið sé með þeim að stuðla að öryggi skipaflutninga í Rauðhafinu.

Samkvæmt Guardian flögguðu þúsundir fánum Jemen og Palestínu á aðaltorgi Sanaborgar og kyrjuðu áköll um niðurrif Bandaríkjanna og Ísraels. Mótmæli áttu sér einnig stað í tveimur öðrum borgum landsins.

Bandaríski hershöfðinginn Michael Erik Kurilla segir í tilkynningu frá miðlægri stjórnstöð Bandaríkjahers, Centcom, að Hútarnir verði dregnir til ábyrgðar fyrir árásir sínar.

Hvíta húsið hefur sagt að Bandaríkin leitist ekki eftir stríði í Jemen og heldur ekki átökum við Íran sem hefur stutt við bakið á stjórn Húta á svæðinu. Talsmaður þess í þjóðaröryggismálum, hann John Kirby, ítrekaði þó í viðtali við MSNBC ákall Bandaríkjanna um að Íran stöðvi stuðning sinn við Hútana í hernaðarmálum.

Bandarísk yfirvöld segja að loftárásir þeirra hafi dregið úr getu Hútana til að stunda árásir líkt og þeir hafa gert undanfarna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×