Handbolti

Austur­rískur sigur skellur fyrir Ís­lendinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mykola Bilyk skoraði sigurmark Austurríkis gegn Ungverjalandi.
Mykola Bilyk skoraði sigurmark Austurríkis gegn Ungverjalandi. getty/Lars Baron

Austurríki vann Ungverjaland, 29-30, í fyrsta leik dagsins á Evrópumótinu í handbolta. Úrslitin eru slæm fyrir Ísland í baráttunni um að komast í forkeppni Ólympíuleikanna.

Mykola Bylik var hetja Austurríkismanna en hann skoraði tvö síðustu mörk þeirra, þar á meðal síðasta mark leiksins þegar um fjörutíu sekúndur voru eftir. Ungverjar fengu eina sókn til viðbótar og voru manni fleiri í henni en komu ekki skoti á markið.

Bilyk skoraði átta mörk fyrir austurríska liðið sem er komið með þrjú stig í milliriðli 1. Það eru ekkert sérstaklega góðar fréttir fyrir Íslendinga sem eru í baráttu við Austurríkismenn, Hollendinga og Portúgali um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna. Tvö af fjórum þessara liða fara væntanlega í hana.

Ungverjaland, sem vann Ísland á þriðjudaginn, byrjaði leik dagsins betur og komst mest fjórum mörkum yfir. En Austurríki vann sig hægt og bítandi inn í leikinn og jafnaði fyrir hálfleik, 17-17.

Seinni hálfleikurinn var æsispennandi en nær alltaf munaði einu marki á liðunum. Bilyk kom Austurríkismönnum í 28-29 þegar hann skoraði úr hraðaupphlaupi en Gergö Fazekas jafnaði í 29-29 og fiskaði Lukas Herburger af velli.

Bilyk skoraði hins vegar næsta mark leiksins og kom Austurríki yfir, 29-30. Fimmmenningarnir í austurrísku vörninni stóðu svo vaktina í lokasókn Ungverjalands vel og Austurríki fagnaði sigrinum.

Hutecek og Robert Weber skoruðu sex mörk hvor fyrir Austurríki og Constantin Möstl varði ellefu skot í markinu (31 prósent).

Bence Bánhidi, Gábor Ancsin, Miklós Rosta og Máté Lékai skoruðu fjögur mörk hver fyrir Ungverjaland sem er með tvö stig í milliriðli 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×