Handbolti

Gefur Snorra sem leitaði í grunninn feitan plús: „Gamla góða Ís­land“

Aron Guðmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson bauð upp á áherslubreytingar í leik íslenska liðsins í leiknum gegn Þjóðverjum í gær. Leitað var í grunninn og er Snorra Steini hrósað fyrir það.
Snorri Steinn Guðjónsson bauð upp á áherslubreytingar í leik íslenska liðsins í leiknum gegn Þjóðverjum í gær. Leitað var í grunninn og er Snorra Steini hrósað fyrir það. VÍSIR/VILHELM

Ís­land mátti þola tveggja marka tap, 26-24, gegn Þjóð­verjum í fyrstu um­ferð milli­riðla EM í hand­bolta í gær­kvöldi. Lé­leg færa­nýting kom í bakið á Strákunum okkar sem sýndu þó miklar fram­farir og ís­lensku geð­veikina sem hafði vantað upp á fram að þessu.

Leikur Þýska­lands og Ís­lands var krufinn til mergjar í hlað­vars­þættinum Besta sætið. Þar sem að Aron Guð­munds­son fékk til sín sér­fræðingana Einar Jóns­son, þjálfara FRAM og Bjarna Fritz­son, fyrr­verandi lands­liðs­mann í hand­bolta.

Ís­lenska lands­liðið mætti til leiks gegn Þjóð­verjum á þeirra heima­velli eftir þungt tap gegn Ung­verjum en í krefjandi að­stæðum stigu Strákarnir okkar upp. Fín frammi­staða í mörgum þáttum en stað­reyndin hins vegar tveggja marka tap og dýr­keypt mis­tök áttu sér stað í sóknar­leik liðsins.

Snorri Steinn Guð­jóns­son hlaut hins vegar mikið lof hjá sér­fræðingum Besta sætisins fyrir upp­legg sitt og djarfar á­kvarðanir í að­draganda leiks og á meðan á leik liðanna stóð í gær­kvöldi.

„Munurinn á liðinu núna, í fyrsta leik í milli­riðli, og frá því í riðla­keppninni er bara himinn og haf,“ sagði Einar Jóns­son að­spurður um sína skoðun á frammi­stöðu Strákanna okkar gegn Þjóð­verjum. „Það er allt annað að sjá þetta. Andinn í liðinu góður, menn slepptu af sér beislinu og mættu til leiks. Maður sá það á spila­mennsku liðsins að leik­menn voru að njóta þess að spila, höfðu gaman af því að spila.“

Sneri hann sér því næst að á­kvörðunum Snorra Steins, sem er á sínu fyrsta stór­móti sem lands­liðs­þjálfari Ís­lands.

„Þær breytingar sem Snorri Steinn gerir fyrir þennan leik, á­herslu­breytingarnar sem hann kemur með. Ég ætla að gefa honum feitan plús fyrir þær. Hann fer bara aftur í grunninn. Mér fannst hann bara fara í gamla boltann. Þann sem ís­lenska lands­liðið hefur verið að spila undan­farin ár. Það sem hefur gengið vel.

Hann fór aftur í týpíska taktík sem liðið hefur verið að spila. Taktík sem hefur gengið vel en jafn­framt taktík sem Snorri Steinn hefur ekki verið að leita í fram að þessu. Mér finnst það geggjað hjá honum að hafa sjálfs­traust í að fara ein­hvern veginn til baka.

Allir leik­menn liðsins þekkja þetta upp­legg. Við vorum farnir að spila leik­kerfi á borð við Bar­ca og Kaíró aftur, taka löngu klippinguna og það var miklu betra flæði út úr fyrstu á­rásunum.“

Góðar á­herslu­breytingar áttu einnig við um varnar­leik liðsins.

„Mér fannst Snorri þar líka hafa farið í Gumma Gumm varnar­leikinn. Við vorum ó­geðs­lega agressí­fir. Hann hendir Ými Erni, sem hafði ekki spilað mikið í riðla­keppninni, þarna inn. Við sáum það bara á fyrstu fimm vörnum liðsins að Ýmir kom þarna inn og slátraði þeim.

Ég sá bara gamla góða Ísland. Vel þjálfað, vel stýrt. Bara flott. Auðvitað er hundleiðinlegt að klúðra öllum þesssum færum úr horninu og vítunum. Kannski er standardinn hjá manni bara orðinn svona lágur. En ég heillaðist.“

Þáttinn má heyra í spilaranum að ofan. Besta sætið er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.a.m. á Spotify hér. Hver einasti leikur Íslands á EM verður gerður upp af sérfræðingum í Besta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×