Senegalska liðið er ríkjandi Afríkumeistari og með sigrinum í kvöld urðu Senegalir annað liðið til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum, á eftir Grænhöfðaeyjum.
Ismaila Sarr kom Senegal yfir strax á 16. mínútu eftir stoðsendingu frá nafna sínum, Pape Matar Sarr, en það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins.
Habib Diallo tvöfaldaði svo forystu liðsins þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka áður en Jean-Charles Castelletto minnkaði muninn fyrir Kamerún rúmum tíu mínútum síðar.
Kamerúnska liðið bankaði á dyrnar og komst nálægt því að jafna metin, en það var að lokum Sadio Mané sem gulltryggði 3-1 sigur Senegal með marki á fimmtu mínútu uppbótartíma.
Senegal er nú með sex stig á toppi C-riðils og hefur tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum. Kamerún situr hins vegar í þriðja sæti með eitt stig.