Erlent

Réðust aftur gegn Hútum í Jemen í nótt

Lovísa Arnardóttir skrifar
Myndin er frá breska hernum og sýnir hermenn undirbúa sig til að fljúga til Yemen og skjóta á skotmörk sem tengjast hernaði Húta.
Myndin er frá breska hernum og sýnir hermenn undirbúa sig til að fljúga til Yemen og skjóta á skotmörk sem tengjast hernaði Húta. Vísir/EPA

Bandaríkjamenn og Bretar skutu aftur á skotmörk í Jemen sem þeir telja tengjast Hútum. Í tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í Pentagon í gær kom fram að skotið hefði verið á átta skotmörk.

Hútar hafa síðustu vikur ítrekað skotið á skip sem þeir segja tengjast Ísrael og Vesturlöndum á leið yfir Rauðahafið. Bandaríkjamenn og Bretar segja að þeir séu að verja frjálsa verslun en algengt er að skip fari þessa leið með ýmsar vörur.

Í yfirlýsingunni frá Pentagon sagði að tilgangur árásarinnar væri að draga úr spennu og koma aftur á stöðugleika í Rauðahafinu. Á sama tíma voru Hútar varaðir við því að þau myndu ekki hika við að verja bæði líf og frjálsa verslun á þessari mikilvægu leið í Rauðahafinu. Fjallað er um málið á vef BBC. 

Um er að ræða áttundu árás Bandaríkjamanna gegn Hútum í Jemen, en aðeins í annað sinn sem Bretar vinna með þeim. Fyrsta sameiginlega árás þeirra var þann 11. janúar. Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að árásin hafi verið gerð með stuðningi frá Ástralíu, Bahrein, Kanada og Hollandi.

Greint var frá því um helgina að Bandaríkjamenn væru að byggja sig undir langvarandi aðgerðir gegn Hútum.

Hútar, sem njóta stuðnings frá yfirvöldum í Íran, hafa árum saman háð blóðuga styrjöld við alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld Jemen. Þeir hafa einnig beint spjótum sínum að Sádi-Arabíu en yfirvöld þar í landi hafa stutt jemensk stjórnvöld.

Hútar stjórna stórum hluta landsins, einkum í norðri og vestri. Þar á meðal er höfuðborgin Sana'a og allt það strandsvæði sem liggur við Bab al-Mandab-sund. Til þess að komast frá Adenflóa, inn um Rauðahaf og þaðan gegnum Súesskurðinn þurfa skip að sigla með fram yfirráðasvæði Húta.

Þeir hafa undanfarnar vikur nýtt sér þetta og gert fjölda árása á flutninga- og herskip. Að þeirra sögn beina þeir árásum sínum aðeins að skipum Ísraela eða að skipum sem eru á leið til hernumdu Palestínu, enda einarðir stuðningsmenn Palestínumanna og frelsunar þeirra. 

Það hefur hins vegar ekki staðist og þeir beint spjótum að skipum sem ekkert hafa með átökin fyrir botni Miðjarðarhafs að gera.


Tengdar fréttir

Gerðu árásir á Húta í fjórða sinn á viku

Bandaríkjamenn gerðu í nótt árásir á Húta í Jemen. Það var í fjórða sinn á viku sem eldflaugum er skotið að uppreisnarmönnunum, sem hafa verið að gera árásir á fraktskip á Rauðahafi og Adeanflóa. Árásirnar voru gerðar í kjölfar þess að yfirvöld í Bandaríkjunum skilgreindu Húta sem hryðjuverkasamtök á nýjan leik.

Hútar hóta hefndum

Hútar hóta hefndaraðgerðum vegna sprengjuárásum sem gerðar voru af Bretlandi og Bandaríkjunum í gærnótt. Tugþúsundir komu saman í Sana höfuðborg landsins til að mótmæla og krefjast aðgerða.

Munu svara á­rásum Breta og Banda­ríkja­manna

Hútar í Jemen hafa lofað því að bregðast við loftárásum Breta og Bandaríkjamanna af hörku. Þá hafa þeir einnig lofað því að áfram árásum sínum á skip í Rauðahafinu sem þeir segja til stuðnings Palestínumönnum gegn Ísraelum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×