Körfubolti

Ráku ó­vænt þjálfarann og ráða Doc Rivers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Doc Rivers er mikill reynslubolti og þekkir það vel að þjálfa lið fullt af stórstjörnum.
Doc Rivers er mikill reynslubolti og þekkir það vel að þjálfa lið fullt af stórstjörnum. AP/Mark J. Terrill

Milwaukee Bucks rak í gær óvænt þjálfara sinn Adrian Griffin og félagið leitaði til reynsluboltans Doc Rivers um að taka við liðinu.

Bandarískir fjölmiðlar segja frá því að félagið sé að ganga frá því að Rivers taki við þjálfun liðsins en til að byrja með þá fékk aðstoðarþjálfarinn Joe Prunty stöðuhækkun.

Það dugði ekki Griffin til að halda starfi sínu að Bucks liðið hafi unnið 30 af 43 leikjum sínum á tímabilinu sem gerir 69,8 prósent sigurhlutfall. Aðeins eitt annað lið í Austurdeildinni er með betra sigurhlutfall og það er lið Boston Celtics.

Það er mikil pressa á liðinu enda með tvo af bestu leikmönnum deildarinnar innan sinna raða.

Hinn 49 ára gamli Griffin var á sínu fyrsta tímabili með liðið en fékk bara 43 leiki. Hann tók við liðinu í sumar af Mike Budenholzer og fékk það verkefni að setja saman nýtt súperstjörnulið.

Bucks fékk til síns stórstjörnuna Damian Lillard í sumar og fyrir var hinn magnaði Giannis Antetokounmpo. Síðan Griffin tók við liðinu þá hefur Bucks farið úr fjórða sæti niður í 22. sæti í deildinni í skilvirkni í varnarleik. Það þótti mikið áhyggjuefni.

Hinn 62 ára gamli Doc Rivers hefur 25 ára reynslu af því að þjálfa í NBA-deildinni og gerði Boston Celtics að NBA-meisturum árið 2008. Hann var síðast með Philadelphia 76ers en hefur einnig þjálfað Orlando Magic, Celtics og Los Angeles Clippers.

Rivers er með sterka tengingu til svæðisins því hann var í háskóla í Marquette sem er einmitt staðsettur í Milwaukee borg.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×