Áslaug Sigurðardóttir Sigurz, íbúi á Grund við Hringbrautina í Vesturbæ Reykjavíkur, er 100 ára í dag. Hún fékk heimsókn úr efstu hillu Sjálfstæðismanna.
„Ég skrapp í stutta heimsókn að Grund í Vesturbænum til að óska henni til hamingju og færði henni konfekt og kaffikönnu,“ segir Bjarni í færslu á Facebook.
„Eftir stutta stund sagðist hún aðeins einu sinni hafa rætt við mig áður. Það var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ég mundi í fyrstu ekki glögglega eftir því samtali enda mun það hafa verið árið 2010. En eftir að hún sagði mér hvað hún sagði við mig á fundinum mundi ég það eins og gerst hefði í gær og ávallt verið þakklátur fyrir þau hlýju orð.“
Bjarni náði endurkjöri sem formaður flokksins árið 2010 eftir baráttu við Pétur heitinn Blöndal.
„Áslaug hefur alla ævi haft mikinn áhuga á sögu. Þótt minnið væri aðeins farið að gefa sig sagði hún það hafa verið mjög sterkt í gegnum tíðina. „Manstu hvenær Jón Arason var hálshöggvinn, Bjarni?“ Meðan ég hugsaði mig um sagði hún: „7. nóvember 1550“. Svo kom næsta spurning: ,,Manstu hvenær Tyrkjaránið var, Bjarni? Það var 1627.“,“ segir Bjarni og óskar Áslaugu og fjölskyldu til hamingju með daginn.
„Megi hún lengi lifa enn.“
Fylgjendur Bjarna á Facebook hrósa honum margir hverjir í hástert fyrir að gleyma ekki gamla fólkinu. Bjarni hefur staðið í ströngu undanfarna daga í umræðu um hælisleitendur þar sem hann hefur varað við þeim fjölda sem sækja um hæli hér á landi. Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hafi þó frumvörp í vinnslu sem eigi að bæta úr hvað það varði.