Erlent

Norð­menn frysta ekki greiðslur til flóttamannaaðstoðar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Um tvær milljónir Palestínumanna eru á vergangi vegna árása Ísraels.
Um tvær milljónir Palestínumanna eru á vergangi vegna árása Ísraels. AP/Fatima Shbair

Stjórnvöld í Noregi ætla ekki að frysta fjárframlög til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í kjölfar ásakanna á hendur starfsmönnum þess að hafa tekið þátt með einhverjum hætti í árás Hamasliða á Ísrael í október síðastliðnum.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra tilkynnti áðan að Ísland myndi frysta greiðslur til flóttamannaaðstoðarinnar þar til ítarleg rannsókn yrði framkvæmd á málinu. Norska sendiráðið í Palestínu segir í færslu á síðu sinni á samfélagsmiðlinum X í dag að ásakanirnar væru sláandi en ekki tilefni til að frysta greiðslur.

„Fregnir um að starfsmenn UNRWA hafi tekið þátt í árásunum á Ísrael 7. október eru mjög alvarlegar, og ef sannar reynast, algjörlega óásættanlegar. Noregur fagnar tilvonandi rannsókn UNRWA á málinu. Við gerum ráð fyrir fullu gagnsæi,“ skrifar sendiráð Noregs í Palestínu.

Sendiráðið segir þó mikilvægt að greina á milli þessara starfsmanna og stofnunarinnar sjálfrar sem gegnir mikilvægu mannúðarhlutverki á svæðinu.

„Við þurfum að gera greinarmun á milli þess sem einstaklingar kunna að hafa gert og þess sem UNRWA stendur fyrir. Tugþúsundir starfsmanna samtakanna á Gasa, Vesturbakkanum og svæðinu gegna mikilvægu hlutverki við að dreifa birgðum, bjarga mannslífum og standa vörð um grundþarfir og -réttindi,“ bætir sendiráðið við í færslunni.


Tengdar fréttir

Ísland frystir greiðslur og kallar eftir ítarlegri rannsókn

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur kallað eftir ítarlegri rannsókn á ásökunum á hendur nokkrum starfsmönnum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Greiðslur til stofnunarinnar verði frystar þar til slík rannsókn fari fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×